152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er nýliði hérna í þinginu og mér finnst þetta stórundarlegt, ég verð að segja alveg eins og er. Hæstv. fjármálaráðherra sagði reyndar að það væru nýliðar í þinginu sem væru við það að gefast upp og hæstv. innviðaráðherra sagði að klukkan tíu að kvöldi væri miður dagur í hans skilningi á Alþingi á þessum tíma ársins. En það er þá alla vega komið síðdegiskaffi núna, klukkan er orðin hálf eitt. Það er gott að vita hver ræður í þinginu því að ég var ekki alveg viss, en það kom fram í fyrirspurn áðan hver ræður.

Ég er næstur á mælendaskrá. Ég vaknaði klukkan fimm í morgun, keyrði til Keflavíkur og til baka. Ég fór á fund klukkan hálftíu og er búinn að vera hérna síðan. Ég hélt ég myndi flytja framsögu mína um nefndarálitið um fjögurleytið í dag en svo er ekki. Ég skil ekki af hverju er ekki hægt að gera bara hlé á þingfundi, fara heim að sofa og byrja svo aftur á morgun. Ef einhverjar samningaviðræður eru í gangi um það, erum við þá að tala um að vera til þrjú, fjögur, fimm, sex, sjö, átta, níu? Mér finnst bara kominn tími til þess núna að fara heim að sofa, koma aftur á morgun og halda áfram umræðu. Þetta er ekki flókið. Ef það eru einhverjar kröfur sem er ekki búið að ganga frá í samningaviðræðum, um framgang mála og annað slíkt, þá er bara að halda áfram þeim samningaviðræðum á morgun. Ég veit alveg í hjarta mínu að þessi fjárlög verða afgreidd fyrir áramót og það verða fundir milli jóla og nýárs. En mér finnst alla vega fyrir mig sem nýliða lágmark að koma hreint fram. Hvert er vandamálið? Það væri ágætt að fá hæstv. ráðherra eða einhvern sem gæti útskýrt það fyrir mér. Ég væri alveg til í að koma hérna klukkan tíu í fyrramálið, ég á að fara á fund klukkan hálfníu og bara í framhaldi af honum halda áfram að tala. Ég veit að það verður stjórnarandstaðan og jú, vinir mínir í fjárlaganefnd verða á svæðinu og vonandi hæstv. fjármálaráðherra líka og svo klárum við þetta.