152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það eina sem stjórnarandstaðan fer fram á er að til þess að hægt sé að semja um lok þessarar umræðu þá greiði meiri hlutinn atkvæði eins og stjórnarandstaðan vill. Þetta staðfesti hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Þannig að ef meiri hlutinn greiðir ekki atkvæði í þingsal eins og stjórnarandstaðan vill þá verða engir samningar um framhald umræðunnar. Það er ágætt að þetta er komið fram í þingsal. Það er nefnilega um þetta sem málið snýst. Á þetta verður aldrei fallist. Það verður aldrei fallist á það að framgangur í þinginu ráðist af því hvernig stjórnarandstaðan vill að stjórnarmeirihlutinn greiði atkvæði sitt í þingsal. Nei, takk, aldrei til samninga um það. (Gripið fram í.) Það er afskaplega mikilvægt að þetta komi fram hér við fundarstjórn forseta vegna þess að það er um þetta sem þessi skrípaleikur snýst, ekki um það hvort Birgir Ármannsson hefur mælst jákvæður eða ekki.