152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ræðum um pólitík. Hér erum við að ræða hugmyndir stjórnarandstöðunnar, breytingartillögur stjórnarandstöðunnar sem var lagt til að yrðu hluti af þinglokasamningum. Þinglokasamningar hafa átt sér stað hér tvisvar á ári svo lengi sem elstu menn muna og jafnvel hæstv. fjármálaráðherra, þó að það sé langt síðan að hann hafi verið hér í þinginu, svo langt síðan að hann er fastur, að því er virðist, í fílabeinsturninum sínum, ætti að muna eftir því að þinglokasamningar eiga sér stað hér við lok haustþings og lok vorþings. Samtal stjórnar og stjórnarandstöðu snýst um það, þetta samtal og hvernig skuli ljúka þessari umræðu. Að auki höfum við óskað eftir því að þeir sem flytja hér nefndarálit séu ekki að flytja þau og ræða um miðja nótt. (Forseti hringir.)

Ég legg til að frú forseti taki ákvörðun um að ljúka þessum fundi núna, að fresta honum þangað til klukkan tíu í fyrramálið. Þá getur næsti nefndarmaður mælt fyrir nefndaráliti sínu í dagsbirtu.