152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að koma aftur í ræðupúltið, en ég verð bara að gera það af því að verið er að segja að þetta sé skrípaleikur allt saman. Er framsaga nefndarálits skrípaleikur? (BLG: Heyr, heyr.) Nú er ég 2. varaformaður fjárlaganefndar og búinn að sitja á nefndarfundum. Við höfum lagt mikla vinnu í fjárlaganefnd í málið og höfum gert það bara ágætlega. Þetta hefur gengið ágætlega hjá okkur í fjárlaganefnd og við höfum reynt að keyra þetta mál áfram svo við náum að klára fjárlög fyrir jól. En svo þegar ég er að fara flytja framsögu við nefndarálit mitt fyrir 2. minni hluta fjárlaganefndar þá er það orðið skrípaleikur. Ég hafna því. Það er leikrit að kalla hlutina bara skrípaleik og það að flytja þetta nefndarálit er ekki skrípaleikur, ég hafna því. Þessar ásakanir eru einfaldlega rangar, þær standast ekki skoðun.

Það sama má segja um margt í þessu fjárlagafrumvarpi og það er það sem við erum að reyna að ræða um hérna í minni hlutanum, í stjórnarandstöðu. Staðreyndin er þessi, alla vega frá mínum bæjardyrum séð: Það á að keyra í gegn samþykki Alþingis á þessu fjárlagafrumvarpi sama hvað tautar og raular, helst án umræðu og helst án gagnrýni stjórnarandstöðu.