152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þingið var varla búið að samþykkja niðurgreiðslu sálfræðikostnaðar þegar hæstv. fjármálaráðherra sagði: Obbosí, það er bara enginn peningur í þetta. Og núna mætir sami ráðherra upp í pontu og er rosalega pirripú af því að minni hlutinn vill fjármagna það sem þingið samþykkti. Hvað segir ráðherrann: Á þetta verður aldrei fallist. Hvað er að manninum, frú forseti? (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Nei, takk, aldrei til samninga um þetta, sagði hann, og kallaði það skrípaleik.

Þetta er móðgun, frú forseti. Þetta er móðgun við Alþingi sem samþykkti að niðurgreiða sálfræðikostnað, sem ríkisstjórnin hefur ekki staðið við. Og þetta er móðgun við alla Íslendinga, hvern einn og einasta, sem þurfa á þessari niðurgreiðsla halda, þúsundir, þúsundir manna sem þurfa á þessari þjónustu að halda en hafa ekki ráð á henni. Og ráðherrann dirfist að kalla það skrípaleik í stjórnarandstöðunni að vilja standa vörð um þetta. Sá ráðherra — hvað heitir sá ráðherra sem leikur skrípaleik? Hann er það.