152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[01:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, 1. þm. Norðvest., fyrir andsvarið. Varðandi húsnæðismálin lít ég þannig á hlutina: Það er verðbólga í heiminum og það er verðbólga á Íslandi. Vissulega hefur verðbólga í heiminum áhrif á verðbólgu á Íslandi. En hluti af verðbólgunni á Íslandi er heimatilbúinn. Þar er stærsti liðurinn húsnæðismálin. Vissulega hefur verið sett fjármagn í þetta, í hlutdeildarlánin og á fleiri staði, en betur má ef duga skal. Það má segja að séu rökin fyrir þessum 3,5 milljörðum, að gera meira, að auka og setja fjármagn til að auka framleiðslu á húsnæði, meira framboð og þá fyrir lágtekju- og millitekjufólk. Það er grundvallarhugsunin á bak við þetta. Það er bara framboð og eftirspurn. Það er skortur á húsnæði, sérstaklega fyrir lágtekju- og millitekjufólk. Maður sér það svolítið hérna í Reykjavík, maður er búinn að heyra sönginn um lúxusíbúðir fyrir efnafólk hérna í miðborginni og í bænum, það eru alltaf fréttir um það. En það verður bara að gera stórátak í þessum málum. Það var gert stórátak við uppbyggingu Breiðholts á sínum tíma og þegar fólk var að koma upp bröggunum. Við þurfum að fara í virkilegt stórátak. Að hluta til eru þetta peningar sem koma aftur til ríkisins. Þarna er verið að í fjárfesta í húsnæði og sett skuldabréf á þetta sem íbúðarkaupendur greiða af. Það er ekki verið að tala um að gefa peninga. Og í þessum tillögum er ekki verið að setja á eftirspurnarhliðina. Það tel ég grundvallaratriði. Ég tel miklu betra að gera þetta á framboðshliðinni. Vissulega hefur margt verið gert, en þessi tillaga miðar að því að gera meira.