152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[01:40]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það sem ég er kannski að leita eftir er: Þær leiðir og aðgerðir sem stjórnvöld hafa ráðist í til þess að reyna að bregðast við þeim vanda sem uppi er á húsnæðismarkaðnum á Íslandi — sér hv. þingmaður fyrir sér að það fjármagn sem hann óskar eftir og leggur til, þessir 3,5 milljarðar, komi inn í núverandi kerfi eða er hann að hugsa um einhverjar aðrar og nýjar leiðir? Og þá hvaða leiðir?

Svo langar mig líka að spyrja hann aðeins út í annað. Það kom mjög skýrt fram í yfirferð hjá Samtökum iðnaðarins að vandamálið væri í raun og veru þríþætt: Það snerist um fjármagn ríkisins, sveitarfélögin og svo markaðinn. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að þetta sé verkefni sem sé ekki bara á höndum ríkisins heldur þurfi fleiri aðilar að koma að því?