152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[01:50]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og óska honum til hamingju með hans fyrsta nefndarálit sem hér birtist. Ég verð á margan hátt að lýsa yfir ánægju minni með það því að hér finnst mér vera komið að kjarna málsins, sem er bara pólitík, hrein og klár pólitík, minna um form. Það eru margir þættir sem væri ástæða til og gaman að taka umræðu um við hv. þingmann sem hann tæpir á í nefndaráliti sínu. Ég vil sérstaklega taka undir umfjöllun hans um öryrkja á bls. 8 þar sem hann vísar til reynslu Svía af því að hjálpa öryrkjum út úr örorkukerfi, sem sagt út á vinnumarkaðinn. Ég held að það sé allrar athygli vert að kanna hvort við fetum slíka leið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, ekki síst fyrir þá einstaklinga sem hafa lent í þessari stöðu, að við styðjum vel við þá, að þeir loki ekki dyrunum á eftir sér, ákveði þeir að stíga út á vinnumarkaðinn með þessum hætti.

En vegna orða hv. þingmanns um húsnæðismál og húsnæðismarkaðinn langar mig aðeins að halda áfram með umræðu sem hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson hóf hér í andsvörum við framsögumann. Það kom mjög skýrt fram á fundi fjárlaganefndar, og ég ætla að biðja hv. þingmann að fjalla aðeins um það af því að það var eiginlega stóra breytan sem kom fram hjá gesti okkar frá Samtökum iðnaðarins, að þar skiptir líka lóðaframboð og skipulagsmál sveitarfélaga miklu máli. Mig langar að spyrja hv. þingmann, þar sem hann fjallar um húsnæðismál og húsnæðismarkaðinn og stuðning við húsnæðisaðgerðir, hvort hann telji þetta ekki eina af stóru breytunum í því hvort nægilegt framboð sé á húsnæði fyrir alla hópa og skapi þannig að eðlilegri verðlagningu á markaðnum.