152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[02:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka þetta efnisríka yfirlit sem þingmaðurinn veitti okkur hérna. Mig langar að spyrja hann út í nokkur atriði af því að mér finnst kveða við dálítið gamlan tón í fjárlagafrumvarpinu eins og það birtist okkur. Ég nefni sem dæmi 6. gr. frumvarpsins sem snýst um heimildir ráðherra til að selja eignir. Þar dúkka t.d. upp mjög margar húseignir á höfuðborgarsvæðinu, tollhúsið er t.d. enn þarna inni þótt hýsa eigi Listaháskólann þar, heilmikið af eignum í kringum Hlemm á Laugavegi, þar sem Þjóðskjalasafnið er og svoleiðis. Ég verð dálítið hugsi þegar ég sé þetta og sé fyrir mér að ríkið sé mögulega að fara að stíga enn fleiri skref í átt að einkavæðingu á eigin húsnæði, (Forseti hringir.) að fá verktaka til að leigja á kannski 30–50 ára samningum (Forseti hringir.) sem er aldrei hagstæðara en að byggja, og hvort við missum ekki kjörið tækifæri (Forseti hringir.) til að gera líka skipulagsstefnu fyrir ríkið þannig að þjónusta hins opinbera t.d. (Forseti hringir.) sé á þessum djúsí reitum miðsvæðis. Afsakið, forseti.

(Forseti (ÁLÞ): Ég bið þingmenn að virða tímann.)