152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[02:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get sannarlega tekið undir þetta. Eitt af því sem mér fannst svolítið sláandi við þetta fjárlagafrumvarp, og eins fjárlagabandorminn, er að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi uppfært markmið sín í loftslagsmálum þá birtist hvergi í þessum þingmálum, hvorki á útgjalda- né tekjuhliðinni, einhver sérstök breyting frá fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar, sem þó sömu flokkar tilheyra. Þar birtist hvergi nein afgerandi breyting eða einhver sókn á þessum sviðum. Það er engin skýr framtíðarsýn þegar kemur að grænni tekjuöflun, grænum ívilnunum og mengunarbótareglunni um að sá sem mengar borgi, að þessum prinsippum sé fylgt. Hv. þingmaður nefndi kolefnisgjald. Í bandorminum hækkar það t.d. um 2,5% meðan verðbólgan er 5%. Það er líka svo erfitt að meta þetta allt saman þegar við vitum ekki hver heildarstefnan er og hvert heildarsamhengi hlutanna er.