152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[03:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður sé sammála okkur og 3. minni hluta um mikilvægi þess að endurskoða tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og hlúa þá betur að málefnum fatlaðra og þeim málefnasviðum sem hafa í auknum mæli færst yfir á sveitarstjórnarstigið.

Að því er varðar ríkisskuldir og slíkt er það sannfæring mín að í rauninni kosti það meira til langs tíma að halda opinberri fjárfestingu verulega í skefjum. Það er nú bara þannig að við stöndum ekki illa þegar kemur að ríkisskuldum miðað við verga landsframleiðslu. Við stöndum ekki verr en nágrannaþjóðirnar, við stöndum ekki verr en Evrópusambandslöndin og að mínu mati getum við ekki notað stöðu ríkisskulda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu sem átyllu fyrir því að draga úr og halda verulega aftur af opinberri fjárfestingu. Það mun bara veikja vaxtargetu samfélagsins til frambúðar.