152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[03:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég hef fylgst af athygli með skrifum hans og hugleiðingum hér í þingsal um einmitt þau viðmið sem eru notuð við þróun bóta almannatrygginga. Það er athyglisvert, eins og hann segir, hvernig þetta virðist loksins viðurkennt. Í bandorminum sem er til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd er önnur að einhverju leyti sambærileg viðurkenning sem snýst um raunskattsskrið, hvernig skattbyrði tekjulægri hópa hefur þyngst langt umfram skattbyrði tekjuhærri hópa vegna þess að viðmiðunarfjárhæðir í kerfunum okkar — hv. þingmaður var að tala um almannatryggingakerfið en þarna er það tekjuskattskerfið — hafa ekki fylgt launaþróun og þannig verður ákveðin gliðnun á löngum tíma.