152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[03:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma þessu sjónarmiði á framfæri og það er gott að geta sameinast um þetta. Svona flatar aðhaldskröfur þegar kemur að nauðsynlegri grunnþjónustu eins og löggæslu, og hvað þá þegar þær eru svona háar, 2%, eru algerlega galnar. Það liggur í augum uppi hversu stórt hlutfall af öllum rekstrarkostnaði í löggæslu er launakostnaður. Svona krafa þýðir auðvitað ekkert annað en það að skerða þarf þjónustu, skerða löggæslu. Ég vona að í meðförum þingsins verði fallið frá þessari aðhaldskröfu eða hún alla vega skrúfuð allrækilega niður. Það sama gildir auðvitað, að mínu mati og að mati 3. minni hluta, um aðhaldskröfur í ýmsum öðrum málaflokkum. Þetta er svolítið gamaldags ríkisfjármálapólitík. Það verða að liggja einhver skynsamleg rök fyrir svona aðhaldskröfum.