152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig minnir að í vor höfum við slegið á að það þyrfti kannski að þrefalda kolefnisgjöldin til að þau endurspegluðu raunkostnað við losunina. Það gefur augaleið að það skapast aldrei sátt um slíka hækkun nema eitthvað komi á móti. Þess vegna skipta gulræturnar einmitt máli eins og þingmaðurinn nefnir. Mig langar að nefna sem dæmi írska kolefnisgjaldakerfið þar sem allt kolefnisgjald fer í pott, loftslagspott, og hver einasta evra sem fer inn í þann pott fer í eitthvað sem fólk tengir kolefnisgjaldinu. Þá sér fólk réttlætið sem er verið að ná fram. Þetta er ekki tekjustofn fyrir ríkið heldur peningur sem er notaður til að gera samfélagið betra og betur í stakk búið fyrir framtíðina. Helmingur af írska kolefnisgjaldinu rennur til þess að endurbæta húsnæði þannig að það noti hreina orku til upphitunar og til að minni orku þurfi til að halda hita á fólki, þriðjungur fer í félagslegan stuðning við fólk, bara til fátækasta fólksins í samfélaginu — ekkert grænt við það heldur bara réttlátt. Öll þessi framlög taka síðan mið af tekjum fólks þannig að fólk neðst í tekjustiganum fær meira en fólkið sem hefur efni á því að ráðast í framkvæmdirnar sjálft. Fyrir vikið skapast sátt um að kolefnisgjöldin hjá Írum séu töluvert hærri en þau eru hér á landi. Manni finnst þetta bara svo borðleggjandi. Kyrrstaða er náttúrlega orðið sem er best hægt að nota yfir þetta en kyrrstaða er ekki í boði í loftslagsmálum þegar tímafresturinn til að grípa til alvöruaðgerða (Forseti hringir.) er til 2030. Það er bara á (Forseti hringir.) næsta eða þarnæsta kjörtímabili.