152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson fór ágætlega yfir afstöðu Samfylkingarinnar og tillögur stjórnarandstöðunnar í fjarveru Kristrúnar Frostadóttur, sem er okkar fulltrúi í fjárlaganefnd, en hún er í sóttkví eins og svo margir þessa dagana. Þetta fjárlagafrumvarp er auðvitað eins og öll fjárlagafrumvörp, hápólitískt plagg. En það hverfur auðvitað svolítið í skuggann af því að við erum að ræða það svona stuttu fyrir jól. Í þessu skjali birtist engu að síður forgangsröðun ríkisstjórnar, mikilvægustu lög hverju sinni og hérna sést svart á hvítu hvernig verja á peningum til hinna ýmsu málaflokka. Það má eiginlega segja það að fyrstu fjárlögin séu raunverulegur prófsteinn á kosningaloforðin. En þessi fjárlög eru hins vegar ekki í neinu samræmi við áherslur ríkisstjórnarflokkanna í aðdraganda kosninga og kannski ekki nema von. Flokkarnir þrír eru ekki beinlínis spegilmynd hver af öðrum en það var þó enginn flokkur sem lofaði því að framhaldsskólarnir þyrftu að sæta niðurskurði, að Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri yrðu vanrækt, að framlög til menningarmála myndu dragast verulega saman eða að öryrkjar og aldrað fólk þyrfti að sæta kjaragliðnun á næstu árum, a.m.k. tveir af stjórnarflokkunum lofuðu þvert á þetta.

Það sem er þó einna sérkennilegast er að fjárlögin eru líka í hrópandi mótsögn við inngangskafla stjórnarsáttmálans. Þegar maður sat á þessu sunnudagshádegi og horfði á formenn stjórnarflokkanna á Kjarvalsstöðum kynna stjórnarsáttmálann þá verð ég að viðurkenna að ég fann fyrir örlítilli bjartsýnn. Í stjórnarsáttmálanum er vissulega hvergi minnst á fátækt og varla ójöfnuð. Það kemur því ekkert á óvart þó að þúsundir barna þurfi áfram að búa við skort og tekjulágu fólki, öryrkjum og öldruðum verði ekki gefin mikil von. En það voru aðrar áherslur sem glöddu mig. Það var lögð mikil áhersla á hina stóru breiðu framtíð og hvernig við þyrftum að axla ábyrgð gagnvart henni og komandi kynslóðum, það var talað um loftslagsmálin, það var talað um tæknibreytingarnar, það var talað um öldrun þjóðarinnar. Það voru gefin fögur fyrirheit sem voru svo einfaldlega slegin ísköld með framlagningu fjárlagafrumvarpsins. Þá birtist auðvitað rétt andlit þessarar ríkisstjórnar, kannski ekki einstakra flokka, en birtingarmynd þess þegar svo ólíkir flokkar ætla sér að búa til bandalag um fjögurra ára stjórnarsetu. Meira að segja fjármálaráð bendir á þetta misræmi í orðræðu stjórnarliða, annars vegar í texta stjórnarsáttmálans og hins vegar þeim tölum sem birtast í fjármálastefnunni. Fjármálaráð hefur orð á því að það skorti samhljóm milli stjórnarsáttmálans og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

Ef við rýnum nú frekar í fjárlögin í stað þess að hlusta á fögur orð stjórnarsáttmálans þá birtist auðvitað pólitísk sýn þessara þriggja flokka saman ágætlega. Þeirra afstaða er áfram kyrrstaða, að sýna kjarkleysi og skeytingarleysi gagnvart ójöfnuði. Það er fyrst og fremst sú sýn sem hægt er að lesa úr þessum fjárlögum, einhvers konar hugleysi þar að auki gagnvart því að koma okkur inn í þá framtíð sem er spennandi en flókin og hugleysi gagnvart því að fjárfesta í stórum og mikilvægum málum, hvort sem það eru loftslagsmálin eða lífsgæðamál komandi kynslóða, að ráðast í aðgerðir sem lítilli þjóð eru nauðsynlegar. Gleymum því ekki að fámenn þjóð þar sem nánast allir þekkja alla getur heldur ekki unað miklum ójöfnuði fyrir utan hversu heimskuleg stefna það er efnahagslega að vera með mjög mikinn mun á milli nágranna. Þá er þetta líka bara siðferðileg spurning og eitthvað sem nálægðin hérna gerir ómögulega. Á þessu þarf að taka.

Vissulega þurfti ríkissjóður að stofna til mikilla skulda vegna Covid-aðgerða en þó má benda á að aðkoman var engu að síður miklu betri en búist var við og þess vegna hefur ríkisstjórnin enga afsökun til að ráðast ekki í nauðsynlegar aðgerðir, bæði til skemmri tíma og lengri tíma, aðgerðir sem hvort tveggja munu skila ávinningi seinna. Það má ekki líta á alla útgjaldaaukningu sem bara einhvern rekstrarkostnað í framtíðinni heldur hugsanlega fjárfestingu sem sparar okkur seinna. Það er auðvitað vel þekkt að fólk sem getur nýtt sér læknisþjónustu, fólk sem er félagslega virkt, fólk sem getur tekið þátt í samfélaginu, mun verða léttara fyrir heilbrigðiskerfið seinna á æviskeiðinu. Það sama má auðvitað segja um loftslagsmálin. Fjárfestingar núna í grænum innviðum, grænni uppbyggingu, grænum atvinnurekstri, umbreytingu mikilvægra fyrirtækja sem starfa nú þegar yfir í græna átt, skila okkur líka hagnaði á endanum.

Við erum auðvitað lítil þjóð og við höfum verið með of fábreytt efnahagslíf en við höfum þó séð eina og eina nýja stoð vaxa. Tvær af þeim stoðum eru annars vegar ferðaþjónustan og hins vegar menning og listir. Við vorum líka algerlega samstiga, allir flokkar hér, um það í gegnum faraldurinn að við ættum að tryggja það að verja heimili, fyrirtæki og heilu atvinnugreinarnar þannig að þær kæmust klakklaust í gegnum þessa kreppu. Við höfum vissulega ekki verið alveg sammála um nákvæmlega með hvaða hætti við ættum að útfæra hlutina eða að hverjum aðstoðin ætti að beinast en a.m.k. að við ættum að ráðast í kröftugar aðgerðir til að halda sjó í gegnum þennan faraldur. Að einhverju leyti hefur það tekist ágætlega. En það er þó áhyggjuefni að það má ekki nægja að við höldum bara sjó gegnum faraldurinn. Við þurfum að tryggja að fólk sé nógu vel í stakk búið til að takast á við framhaldið. Bæði varðar þetta heimili, við bentum margsinnis á að það þyrfti að sjá til þess að einstaklingar kæmust líka sem heilbrigðastir og fjölskyldur sem heilastar á ráspunkt þegar þessu lyki þannig að það taki þau ekki ár eða áratugi að vinna upp tapið sem safnaðist upp á þessum tveimur, þremur árum. En þetta á líka við um ákveðnar atvinnugreinar. Við heyrum það í síðustu viku að það er talið að um 20% af sjálfstætt starfandi listafólki hafi hrökklast úr greininni, horfið úr greininni, grein sem byggir á eiginleika sem verður okkur sífellt mikilvægari og dýrmætari, sem er skapandi hugsun. Hún verður það efnahagslega en listin skiptir sjálfsmynd þjóðar líka gríðarlega miklu máli og það er rétt að halda því til haga. Verst hefur þetta ástand bitnað á konum sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir femínískan flokk eins og Vinstri græn sem tala gjarnan á þeim nótum. En hvað gerist? Við sjáum þess ekki stað eða varla í fjáraukanum að þar sé verið að bregðast við þessu. Við sjáum það heldur ekki í fjárlögum næsta árs sem hlýtur þá að verða til þess að við þurfum í næsta fjárauka að fara að styðja þessar greinar vegna þess að við erum enn þá í miðjum faraldri, við skulum gera okkur grein fyrir því. Fjáraukann á að nota til að taka á ófyrirsjáanlegum breytingum. En það er fyrirsjáanlegt að þessir hópar, bæði í veitingageiranum og listageiranum, munu lenda í vandamálum. Við sjáum það nú þegar. Það var gripið til mjög harðra aðgerða fyrir einum eða tveimur sólarhringum. Ekki ætla ég að draga í efa að það er nauðsynlegt að gera eitthvað og ég hef verið almennt talsmaður þess að við fylgdum tilmælum sóttvarnalæknis og er það enn þá. En það þýðir ekki að þar eigi við að sitja. Auðvitað hefði ríkisstjórnin eftir sama ríkisstjórnarfund og hún tilkynnti um hertar aðgerðir átt að tilkynna með hvaða hætti ætti að endurnýja og skapa ný úrræði fyrir stóra hópa fólks í menningargeiranum, í veitingageiranum sem er núna að verða fyrir miklum búsifjum. Hvar eru þær tillögur, frú forseti?

Og af því að ég er farinn að ræða þetta þá berast fréttir af því að það eru gefnar undanþágur til einstakra listamanna til að halda viðburði vegna þess að það hafi verið svo mikið í lagt og það var of seint að snúa við og hætta við viðburðinn. Ég ætla ekki að draga það í efa, mér finnst það alveg vera réttmætt sjónarmið, þá verðum við líka að skoða þetta gagnvart öllum. Í morgun fékk ég póst frá Félagi veitingahúsaeigenda sem bendir á að þau eru búin að manna vaktir á Þorláksmessu, eru búin að standa frá morgni til kvölds að skera niður lauk og roastbeaf og guð má vita hvað þetta allt heitir. Hvert fer allt þetta hráefni? Fólkið þarf væntanlega að borða það sjálft um jólin, mat sem var kannski ætlaður fyrir nokkur hundruð manns. Það verður að vera eitthvert gagnsæi, það verður að vera eitthvert jafnræði og réttlæti í þessu.

Ég gagnrýni sem sagt ekki að það séu veittar undanþágur vegna þess að tíminn hafi verið of skammur en það verður þá að gera það með almennum hætti þannig að allir njóti þess vegna þess að öll í þessum greinum verða fyrir þessu.

Og ég spyr aftur: Hvar eru aðgerðirnar sem hefði átt að boða samfara mjög hertum samkomutakmörkunum? Þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin getur ekki vikið sér undan og þessa ætti auðvitað að sjá stað í fjárlögum sem verða samþykkt. Ég vona svo sannarlega að hv. formaður fjárlaganefndar sem situr hér muni taka þetta upp á milli umræðna og ræða með hvaða hætti við ætlum að endurnýja úrræði eða koma með ný. Það er eins og þegar þetta fjárlagafrumvarp var skrifað hafi Covid-faraldurinn verið að fjara út, þetta væri að verða búið. Svo er aldeilis ekki. Mjög mörgum á eftir að blæða á næstu mánuðum.

Við getum alveg sagt að umfang ríkissjóðs á síðustu tveimur árum endurspegli að einhverju leyti nauðsynleg viðbrögð við heimsfaraldri en það er ekki stefna og það er ekki sókn. Nú tekur við þriðja ár í viðbragðsstjórnmálum og guð má vita hvað þessi faraldur mun endast en við getum ekki staðið í þessu, getum ekki vikið öllum erfiðum og nauðsynlegum spurningum og aðgerðum til hliðar bara vegna þess að við erum í vörn. Við þurfum að spila vörn en við verðum líka að geta spilað sókn. Í því felst skynsamlegt leikskipulag, að vinna fram á við á sama tíma og maður passar að missa ekki sókn andstæðinganna fram hjá. Við erum ekki að sjá neina sókn t.d. í umhverfis- og loftslagsmálum, varla í nýsköpun og tæknibreytingum. Það er einhver aukning, jú, og búið að gera ágætlega í nýsköpunarmálum að undanförnu en frá 2023 mun það minnka og fjara undan því. Líta stjórnarliðar sem sagt á það sem svo að nýsköpunarmál á Íslandi, sem á að vera nýja stoðin, sé skammtímaverkefni? Hefðum við ekki þurft að sjá aukningu lengra fram í tímann? Ég spyr, frú forseti.

Aukning til loftslagsmálanna frá því sem gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram á síðasta ári er nær engin. Vissulega sögðu formenn stjórnarflokkanna í kosningabaráttunni að fjármálaáætlunin væri úrelt vegna þess að það væru að koma kosningar en engu að síður tilkynntu þau og sýna það í fjárlagafrumvarpinu að þau byggja á þessari fjármálaáætlun. Þá hlýtur hún að vera í gildi. Og þar er engin aukning í loftslagsmálum frá því sem áformað var síðasta vor þrátt fyrir mjög digrar og háværar yfirlýsingar í kosningabaráttu.

Það er heldur engin sókn í menntamálum, sem eru samt lykilatriði ef við ætlum með einhverjum hætti að nýta okkur ávinning af tæknibyltingunni og gera okkur kleift að láta tæknina vinna með okkur en ekki gegn okkur, tæknibyltingunni sem er fjallað svo mikið um samt sem áður í stjórnarsáttmálanum. Enn tengi ég menntun og menningu saman sem verða lykilþættir hvort sem menn ætla að vinna við listir, menningu, bókhald, lögfræði eða hvað sem menn fara að gera, þá skiptir skapandi hugsun miklu máli. Ég get ítrekað hér, þó að það sé ekki til umræðu, frú forseti, að mér finnst ekki sannfærandi hvernig er verið að rífa menntamálin og menningarmálin í sundur og henda yfir í sex mismunandi ráðuneyti og maður sér engan þráð í því. Ég hef áhyggjur af því að það sé verið að setja menningarmálin með öðrum málaflokkum sem gefur til kynna að það eigi að vera drifið áfram á viðskiptalegum forsendum. Listir og menning eru svo miklu meira heldur en efnahagslegur hlutur. Þó svo að skapandi greinar gegni stöðugt meira og stærra hlutverki í hagkerfi okkar og munu gera í framtíðinni þá er listin bara býsna mikilvægur hlutur í sjálfu sér, sem spegilmynd á samfélagið, sem gagnrýni á samfélagið og ríkjandi skoðanir. Hún á ekki að lúta neinum samkeppnissjónarmiðum í öllum tilfellum þó að ákveðnar hliðar hennar geti auðvitað verið það.

Og að lokum um þetta, frú forseti, þá virðist eins og ójöfnuður komi þessari ríkisstjórn hreinlega ekki við. Það er stöðugt verið að vísa í að það eigi að gera heildarendurskoðun á hinu og þessu sem tókst ekki á síðasta kjörtímabili. Ég ætla bara að minna aftur á það að fólk borðar ekki heildarendurskoðun og fólk býr ekki í heildarendurskoðun. Fólk þarf á kjarabótum að halda til að geta lifað og það er ekki nóg fyrir manninn árið 2021 að geta bara klætt sig, fætt og átt öruggt húsaskjól, þótt það sé nauðsynlegt og reynist mjög mörgum erfitt. Nútímamanninum er það líka eiginlegt að vilja geta notið allrar þeirrar fegurðar og lífsgæða sem lífið okkar hefur upp á að bjóða, hvort sem er á sviði tómstunda, íþrótta, menningar, lista eða annarra hluta. Við getum ekki búið til tvær þjóðir í sama litla landinu þar sem annar helmingurinn hefur vissulega aðgang og möguleika og tækifæri til að njóta alls þessa en hinn verður að láta sér nægja þær nauðþurftir sem afar okkar og ömmur sættu sig við, að geta búið undir þaki og borðað og klætt sig svona nokkurn veginn en ekkert umfram það.

Þetta viðhorf ríkisstjórnarinnar er auðvitað alvarlegasta merkið um að grunnvelferðarkerfi okkar stendur á býsna veikum fótum. Staða viðkvæmra fjölmennra hópa í samfélaginu á það undir ríkisstjórn, sem hefur ekki áhuga eða sýnir a.m.k. ekki vilja til þess að bæta stöðuna, hvernig líf þeirra spilast næstu árin og við það verður ekki unað og við það get ég ekki sætt mig, a.m.k. ekki af flokkum eins og Vinstri grænum eða Framsókn, fimm, sex vikum fyrir kosningar. Dæmi um þetta er að grunngreiðslur til öryrkja hafa dregist langt aftur úr almennri launaþróun í landinu. Fjárlög eftir fjárlög eykst kjaragliðnun milli öryrkja og fólks á almennum vinnumarkaði. Nú er svo komið að það munar um 90.000 kr. á grunnlífeyri öryrkja og lægstu launum í landinu. Við þetta bætist að ríkisstjórnin hefur haldið aftur af eðlilegri hækkun frítekjumarks öryrkja sem þýðir á mannamáli að þeir hafa ekki einu sinni möguleika á, ef þeir geta og það geta ekki allir, að drýgja tekjur sínar. Öryrkjum er sem sagt enn þá haldið og mun verða haldið í spennitreyju fátæktar undir þeim formerkjum að í farvatninu sé einhver risastór endurskoðun sem á að bjarga kjörum þeirra. Samfylkingin mun taka af fullum þunga þátt í þeirri endurskoðun og hún er mikilvæg og ég ætla ekki að gera lítið úr henni. En lágmarkið hefði verið að stoppa a.m.k. kjaragliðnunina þannig að þegar við loksins náum þessari heildarendurskoðun hafi þeir ekki dregist enn meira aftur úr en þeir gerðu þegar þessi ríkisstjórn tók til starfa. Það má alveg segja hið sama um stöðu eldra fólks í landinu, fólks sem reiðir sig á greiðslur frá Tryggingastofnun en sér allar sínar lífeyrisgreiðslur eða aðrar tekjur ef það vill afla sér tekna hverfa vegna úrelts skerðingarkerfis. Við þennan fjölmenna hóp, frú forseti, bætist kannski hópur sem er hryggilegast að horfa upp á sem í eru hátt í 10.000 börn á Íslandi sem líða skort á meðan við hlustum á viðtöl við útgerðargreifana sem af góðmennsku sinni dreifa bókum í grunnskólum og tala um það í leiðinni að það sé miklu betra að hafa kerfið þannig að það verði mikill peningur eftir hjá fyrirtækjunum þannig að þeir geti séð um hvert þeir eiga að fara.

Nei, frú forseti, við eigum að vera með sanngjarna, réttmæta og gegnsæja skattheimtu þar sem við sem betra höfum það leggjum meira til samfélagsins og verjum hina. En samneysla okkar á ekki að vera í höndunum á einstökum fyrirtækjum.

Síðan er það auðvitað kapítuli út af fyrir sig hvernig ríkisstjórnin lokar augunum fyrir stöðu fólks á mjög erfiðum húsnæðismarkaði. Við sjáum ekki aukinn kraft í uppbyggingu á félagslegu húsnæði þrátt fyrir gríðarlegar verðhækkanir á húsnæðismarkaði síðustu misserin sem er að miklu leyti á ábyrgð ríkisstjórnarinnar með hagstjórn hennar fyrir einu ári síðan og þegar vitað er að það er framboðsskortur. Það væri skynsamlegra fyrir ríkisstjórnina að koma með langtímaáætlun um hvernig eigi að tempra þessar sveiflur og hvernig eigi að sjá til þess að það sé alltaf nægt framboð á markaði í staðinn fyrir, þegar í óefni er komið, að koma alltaf með þessar „kvikk“ lausnir sem gera ekkert annað en að spenna upp íbúðaverðið og það bítur fólk strax á annarri, þriðju, fjórðu afborgun.

Við þekkjum það að sá hópur sem hefur lægstu tekjurnar í samfélaginu hefur náttúrlega orðið verst fyrir barðinu á þessari brjálæðislegu verðhækkun á íbúðarhúsnæði. Hann hefur minnstu möguleikana til að bregðast við með því að skuldbreyta eða breyta lánum. Þetta bitnar auðvitað á öllum, hvort sem þeir búa í Reykjavík eða á Raufarhöfn, í Kópavogi eða Kópaskeri þar sem húsnæðismarkaðurinn er gjörólíkur. Við getum einfaldlega ekki sætt okkur við þetta sisvona. Við hljótum að vilja byggja upp félagslegt, sterkt húsnæðiskerfi samhliða hinu almenna sem er byggt upp á frjálsum markaði. Þar verðum við annars vegar að hugsa til þess að byggja íbúðir sem fólk getur keypt en ekki síður að byggja upp heilbrigðan leigumarkað. Ég talaði um það í gær líka að ég er búinn að fara á nokkrar íbúaráðstefnur á vegum stjórnvalda þar sem alltaf hefur verið kynnt sama niðurstaðan um það að íslenskir leigjendur vilji miklu síður vera á leigumarkaði en leigjendur í Noregi, Svíþjóð eða Danmörku eða Þýskalandi. Það er alltaf dregin sú ályktun að Íslendingar séu svo sérstakir að þeir vilji ekki búa í leiguhúsnæði. Auðvitað hefur það ekkert með það að gera. Þetta hefur með það að gera að leiguúrræði hér, leigumarkaðurinn hér er bara svo miklu verri heldur en t.d. í Þýskalandi. Fólk er svo brennt af reynslunni að það vill ekki vera þar á meðan 70, 80, 90% Þjóðverja búa í leiguhúsnæði, ein auðugasta þjóð í heimi. Þetta snýst ekki um hvað fólk vill. Þetta snýst um að fólk geti valið og að valkostirnir séu nógu góðir til að valið sé raunverulegt.

Það má eiginlega segja að efnaminna fólk á Íslandi hafi verið algjörlega yfirgefið af stjórnvöldum þegar verkamannabústaðakerfið var lagt niður af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Það er ekki nægilegt framboð af leiguhúsnæði eða hagkvæmum íbúðum fyrir fólk með meðaltekjur, hvað þá þá sem eru í veikustu stöðunni. Þess vegna er alveg ljóst að þetta er gríðarlega stórt verkefni og sennilega eitt stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Við ættum að fara að temja okkur það hugarfar, þjóð sem býr út við ystu höf og við þá veðráttu sem hér ríkir, að húsnæði er ekki lúxus, húsnæði ætti náttúrlega að líta sömu augum og aðrar grunnþarfir en við gerum það ekki. Samfylkingin vill þess vegna, og hinir stjórnarandstöðuflokkarnir, auka það fé sem fer í almenna íbúðakerfið og vinna áfram í góðri samvinnu við launþegahreyfingu og sveitarfélög en skrefin sem ríkisstjórnin er að stíga eru of stutt og þau eru of fá. Við viljum með öðrum orðum ekki umbreyta því sem er komið af stað. Við viljum bara gera það með sýnilegri og kröftugri hætti.

Frú forseti. Það er ekki hægt að ljúka þessari ræðu án þess að tala um barnabótakerfið. Barnabótakerfi að norrænni fyrirmynd er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja, þó að það sé sorglegt og sárgrætilegt og enn þá sárgrætilegra er að heyra hæstv. félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra staðfesta í ræðu núna fyrir nokkrum dögum að hann teldi að barnabótakerfið ætti að vera fátæktarstyrkur. Það ætti ekki að vera eins og á hinum Norðurlöndunum. Ég átta mig ekki á því hvert sá flokkur er að fara ef hann telur það eðlilegt að barnabætur byrji að skerðast með lægstu launum. Látum það nú vera þó að það geri það einhvers staðar, í Danmörku held ég að það gerist við 1.100.000 þús. kr. á mánuði eða svo. Ég myndi ekki einu sinni gera ágreining við það ef það yrði farið aðeins lægra en ekki neðar en meðaltekjur. Það held ég að ætti að vera það lægsta, frú forseti. Við í Samfylkingunni og við jafnaðarmenn almennt lítum þannig á að samfélagið beri ábyrgð á framfærslu og velferð barna og þess vegna teljum við að þetta sé skynsamlegt skref. Fyrir utan það svo að börn eða fólksfjölgun er líka býsna efnahagslega klókt fyrir öll ríki, ég held að mörg séu farin að átta sig á því núna þegar fólksfækkun er beinlínis að verða til trafala, a.m.k. hér á Vesturlöndum. Við viljum þess vegna jafna stöðu barnafólks gagnvart þeim sem eru ekki með börn á framfæri sínu. Þetta snýst ekkert um annað en það og þess vegna viljum við ekki þessar skörpu tekjutengingar. Það er á þessu æviskeiði sem það er dýrast að reka heimili. Maður er svona rétt að komast út á vinnumarkaðinn og er með minni tekjur að jafnaði heldur en síðar. Það er býsna öfugsnúið einhvern veginn að þegar börnin eru flogin úr hreiðrinu þá er maður búinn að vinna sér inn töluverð réttindi, margir komnir í góðar stöður og að þá hafi þeir það best. Auðvitað er gott að fólk hafi það gott en við eigum að létta undir með barnafólki. Kostnaður sem leggst til á hverju heimili vegna barna er alveg ótrúlega mikill. Þetta eru föt, það er matur, skólagögn, tómstundastarf, fyrir utan það svo að þetta gerir ríkari kröfur til húsnæðis og öll viljum við að börnin mennti sig. Ég held að þetta væri skynsamleg fjárfesting til framtíðar fyrir samfélagið. Þá ítreka ég það sem ég sagði áðan: Það má ekki líta á öll rekstrarútgjöld sem kostnað eða blóðpening ríkisins eins og sumir gera núna. Við eigum að líta á það sem fjárfestingu vegna þess að þetta mun skila sér. Það mun skila sér í betri menntun, mun skila sér í heilbrigðari börnum, þetta mun skila sér í minna álagi á heilbrigðiskerfið. Þetta er fjárfesting en ekki aukin rekstrarútgjöld án alls, eins og hæstv. fjármálaráðherra er nú vanur að líta á hlutina.

Frú forseti. Ef við skoðum fjárframlög og stöðuna í heilbrigðiskerfinu þá kemur í ljós að auknu framlagi Landspítalans fylgja kostnaðarsöm verkefni. Það er rekstur hágæslurýma, endurhæfingarrýma á Landakoti til að samræma viðbúnað heilbrigðiskerfisins við heimsfaraldri. Margt hefur verið gott gert þarna. En hækkunin á því er ekki endilega til þess fallin að bæta undirliggjandi rekstrarvanda spítalans þó að þetta sé vissulega jákvætt skref til að styrkja heilbrigðisþjónustuna í landinu. Ég las það í nefndaráliti minnar ágætu flokkssystur, hv. þingkonu Kristrúnar Frostadóttur, að það vantaði 2 milljarða inn í rekstur sjúkrahúsþjónustu á næsta ári og stefnir í að það þurfi að skerða þjónustu við almenning ef svo verður.

Ég ætla að láta það eiga sig núna, ég er svo oft búinn að tala um vanda og stöðu hjúkrunarheimila að það væri nú að æra óstöðugan, en þó sýnist mér að þrátt fyrir ágætisátak nefndarinnar þar, og ég hrósa nefndinni fyrir að það koma inn peningar þar, þá sé staðan því miður enn þá of slæm. Þetta muni sem sagt enn þá vera býsna íþyngjandi rekstur. Með sívaxandi öldrun þjóðar hljótum við að þurfa að fara að skoða miklu fjölþættari nálgun í þessum málaflokki. Í fyrsta lagi er fólk náttúrlega sífellt hressara og hressara lengur og við eigum að búa þannig um hnútana að fólk geti búið heima hjá sér sem lengst. Það væri hægt að gera með auðvitað bæði samþættingu heilsugæslu, heimahjúkrunar og heimaþjónustu og starfsemi á öldrunarheimilum. En við getum líka gert það með því, í staðinn fyrir að taka fólk inn á hjúkrunarheimili, að aðstoða það hreinlega við að breyta og laga húsnæði þannig að það geti búið lengur heima. Það er auðvitað viðhaldskostnaður sem kemur mjög fljótt í plús hjá ríkinu líka, fyrir utan það að veita íbúunum miklu meiri vellíðan. Þetta veit ég að gert er í Svíþjóð og víðar með ágætisárangri. Þetta snýst oft bara um að breikka hurðargöt, fækka þröskuldum, hækka klósettsetu. Auðvitað getur það kostað milljón. En hversu hár kostnaður er það ef menn horfa á sólarhringskostnað við innlögn á hjúkrunarheimili?

Herra forseti. Við í Samfylkingunni hefðum, ef við hefðum verið í ríkisstjórn með öðrum framfarasinnuðum flokkum, lagt fram allt öðruvísi fjárlög en það fellur hins vegar í okkar hlut í stjórnarandstöðunni að bæta þau fjárlög sem ríkisstjórnin leggur fram. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna munu hafa tækifæri til að greiða atkvæði um sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar, utan Miðflokks, og ég hvet þau til að skoða þær með opnum hug. Ég ætla ekki að fara yfir þær hér, það eru svo margir þingmenn búnir að gera og eiga örugglega eftir að gera. Ég læt mér nægja að minna stjórnarliða á þetta. Að lokum vil ég þakka stjórnarliðum fyrir að hafa tekið stórmannlega í þá breytingartillögu sem kom upphaflega frá stjórnarandstöðunni um að greiða öryrkjum 53.000 kr. eingreiðslu um jólin. Við þurftum að berjast fyrir þessari tillögu í talsverðan tíma. Við mættum andstöðu hjá ráðherrum, ekki endilega hjá meiri hluta fjárlaganefndar, þannig að ég held að það skipti nú ekki máli hvaðan gott kemur og ég held að við eigum öll að vera ánægð með þann sóma sem þessi málalok eru. En ég minni samt á að þetta er auðvitað engin lausn á stöðu þessa hóps. Þetta gerir jólahaldið hjá því fólki bærilegra. Þetta léttir því að gefa börnum og barnabörnum jólagjafir, kaupa hamborgarahrygg og jólaöl, skreyta jafnvel ef það er eitthvað eftir. Þetta gerir ekkert meira en það þannig að ég ítreka að ég vil auðvitað líka heildarendurskoðun á málefnum þessara hópa en við getum ekki beðið með að koma til móts við þá þangað til henni er lokið.

Ég hvet hv. fulltrúa fjárlaganefndar til dáða og minni þá á að það er þingið sem fer með fjárveitingavaldið. Það erum við sem tökum endanlega ákvörðun um hvernig fjárlögin líta út. Það er engin goðgá að hlíta ekki alltaf beinu boðvaldi ráðherra, okkur væri sómi að því ef við segðum stundum: Jú, jú, við skiljum ykkar sjónarmið en við erum ósammála þeim, við ætlum að gera þetta aðeins öðruvísi. Ég hvet stjórnarliða til að vera aðeins opnari gagnvart því.