152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar ef þetta hefur snortið hv. þingmann illa. Ég held að ég hafi nú minnst á að það hafi einmitt verið gert nokkuð vel í nýsköpunarmálum. Ég vakti hins vegar athygli á því að mér sýnist samkvæmt fjármálaáætluninni að svo fjari undan framlögum eftir 2–3 ár og ég benti á að þetta væri ekki skammtímaátak. En staðan sem er betri núna er ekki bara komin til vegna ráðdeildar ríkisstjórnarinnar. Hún er komin til vegna þess að í upphafi kreppunnar spáðu sérfræðingar að einhverju leyti rangt til um hvernig fólk myndi hegða sér, hvernig neysla fólks yrði. Þess vegna höfum við enga afsökun fyrir að nýta okkur ekki það svigrúm, upp á 60 milljarða aukalega, til að sýna smá sóknarhug, spila líka sókn, ekki bara vera í vörninni.