152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:26]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu og marga góða punkta. Ég er honum sammála um það að að líkindum er ekkert sem Ísland er þekktara af um víða veröld en hin skapandi hugsun, allt frá dögum Snorra Sturlusonar að Halldóri Laxness, að Björkum og Sigur Rósum og öllum hinum Arnöldunum meðtöldum. Þetta er fólkið sem heldur nafni okkar á lofti.

Ég vil minna á að það er mjög mikilvægt, að rétt eins og ríkisstjórnin stóð myndarlega að baki ferðaþjónustunni þegar mest reið á til að innviðir hennar molnuðu ekki upp þegar bylgjurnar skullu yfir hér upphaflega, þá eru þær greinar sem hv. þingmaður hefur getið afar mikilvægar fyrir samfélagið, bæði í menningarlegu tilliti og líka í hagrænum skilningi. Þá ber að nefna það að stoðkerfi menningargeirans, skapandi greinanna, svo sem hljóðkerfaleigur og tæknifyrirtækin öll, standa afar höllum fæti við þær aðstæður sem nú blasa við. Þess vegna vil ég eindregið mælast til þess að það verði tekið tillit til þeirra sem starfa á þessum akri þó að þau séu ekki beinlínis með hljóðnemann í hönd. Ég ætla að gera mér vonir um að nýskipan ráðuneyta verði líka til að efla hinar skapandi greinar. Til skamms tíma var menningin dálítið eins og lítil skúffa í risastóru skólamálaráðuneyti. Ég er bjartsýnn á að með því að gera þetta eins og gert er núna þá geti þessi geiri fengið að blómstra og dafna betur. Ég styð líka kröfur veitingamanna um ívilnanir sem nauðsynlegar verða að teljast núna um „há-season“.