152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Um gildi menningarinnar held ég að við hv. þingmaður séu sammála. Það er tvíþætt; það er annars vegar þetta efnahagslega gildi, en síðan er það líka bara það sem snýr að sjálfsmynd þjóðar. Ég hef stundum sagt að við þurfum líka að rækta það listafólk sem er að vinna að óhefðbundinni list, sem í eðli sínu getur aldrei verið arðbær í einhverjum ársreikningum, vegna þess að það fólk er það sama fyrir listafólkið, sem er að vinna á svona breiðara markaðssviði, og rannsóknaprófessorar eru jafnvel fyrir fólk sem er komið út í atvinnulífið. Það er mikilvægt að við höfum fólk í háskólum og víðar sem skrifar og gerir rannsóknir á meðan við sem erum úti á hinum daglega vinnumarkaði getum litið til þeirra.

En ég ítreka það sem ég sagði áðan og tek undir með hv. þingmanni, að það er mjög mikilvægt að fundin verði einhver leið til að bregðast við þessum þyngri takmörkunum sem settar voru á fyrir tveimur dögum varðandi sviðslistamenn, menningarfólk, veitingageirann og önnur þau sem áttu býsna góða, tvo, þrjá sólarhringa, held ég, í vændum. En þær vonir urðu að engu og í einhverjum tilfellum hefur beinlínis hrannast upp kostnaður sem ríkið þarf einhvern veginn að standa skuldaskil á.