152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í sjálfu sér alveg meðvitaður um að mjög miklu máli skiptir að gera mikinn greinarmun og eðlisgreinarmun á fjárfestingu annars vegar og rekstri hins vegar. Ég get hins vegar alveg tekið undir með hv. þingmanni, og nefndi það í ræðunni, að hugsa þarf rekstrarútgjöld í botn. Jafnvel þótt þau séu varanleg til langs tíma þá geta þau sparast þegar fram í sækir í minna álagi, t.d. á heilbrigðisþjónustu, og meiri verðmætasköpun úti í atvinnulífinu. Verðmætin verða jú ekki til bara inni í fyrirtækjunum, eins og hæstv. fjármálaráðherra telur, þau verða auðvitað til með góðu heilbrigðiskerfi, góðu menntakerfi, alþjóðasamningum og ýmsu öðru. Mér sýnist skorta á dirfsku í afgerandi fjárfestingum þar sem enginn ágreiningur er um að bara sé um fjárfestingar að ræða, t.d. í grænni atvinnuuppbyggingu og loftslagsmálum. En mér finnst líka skorta (Forseti hringir.) skilning og víðsýni þegar kemur að rekstrarútgjöldum sem varða viðurværi fólks (Forseti hringir.) sem getur svo sannarlega skilað sér til lengri tíma líka.