152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:57]
Horfa

Thomas Möller (V):

Virðulegur forseti. Í þessari fyrstu ræðu minni á Alþingi vil ég hvetja hv. þingmenn til að staldra aðeins við og hugleiða hvort við getum sýnt skattgreiðendum þessa lands meiri virðingu. Mig langar að vekja ykkur til umhugsunar um ríkisfjármálin og þau miklu ríkisútgjöld og þá háu skattheimtu sem á sér stað á þessu landi og er ákveðin í þessum sal. Mig langar líka að miðla svolítið af reynslu minni eftir 40 ára starf í atvinnulífinu.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann við skoðun fjárlagafrumvarpsins er hvað rekstur ríkisins er orðin flókinn og dýr. Við erum með í höndunum um 500 blaðsíðna rit sem lýsir 2.000 milljarða fjárstreymi. Tæpir 1.000 milljarðar inn í kassann og rúmlega 1.000 milljarðar út. Mismunurinn er einfaldlega tekin að láni með því að ýta á grænan takka. Þetta eru 5,5 milljarðar á dag sem fara inn og út, bara í dag. Þessu fylgir mikil ábyrgð. Ég tek eftir því að í fjárlögum ársins 2022 er lítið fjallað um hagræðingu og einföldun ríkisrekstrar. Ekkert er fjallað um fækkun ríkisstofnana og útvistun verkefna ríkisins til einkaaðila er bara ekkert á dagskrá.

Varðandi skattheimtuna má geta þess að Ísland er þegar orðið háskattaríki í alþjóðlegum samanburði. Við erum næstskattpíndasta þjóðin í OECD, ef svo mætti orða það, samkvæmt nýlegri frétt. Aðeins Svíþjóð skattleggur þegna sína meira hlutfallslega og ég legg til að við vinnum ekki Svía í þeirri íþrótt. Skatttekjur hins opinbera voru um 33% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2018. Miðað við núverandi launahlutfall, þjóðarframleiðsluna, þýðir það að launþegar eru í raun að vinna næstum hálfan daginn bara fyrir sköttum, hálft árið, hálfa ævina. Erum við hugsanlega komin að þolmörkunum í skattheimtu? Ég vil þó benda á að með sköttum erum við almennt að greiða fyrir nauðsynlega þjónustu sem fæstir vilja vera án. En ég leyfi mér að fullyrða að við getum farið mun betur með skattpeninga almennings og það þarf ekki að leita lengi í fjárlögum fyrir næsta ár til að sjá að af nógu er að taka.

Í fjárlagafrumvarpinu er sagt að vaxa eigi út úr vandanum með öflugu atvinnulífi en samfara því stækkar yfirbygging ríkisins og stjórnunarkostnaðurinn vex áfram. Ríkisreksturinn er orðinn sjálfbær og hann var það áður en til heimsfaraldurs kom. Þá má benda á að stjórnvöld fengu nýlega falleinkunn í umsögn fjármálaráðs í tengslum við fjármálastefnu næstu fimm ára. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim vanda sem við blasir er verulegt áhyggjuefni og nauðsynlegt er að grípa til aðhaldsaðgerða og sparnaðar í ríkisrekstri og það strax. Skuldahlutfall ríkissjóðs fetar kunnuglegar slóðir í frumvarpinu og vextir af skuldum ríkisins eru nú orðnir fimmti stærsti kostnaðarliður ríkissjóðs. Það er líka mikið áhyggjuefni.

Virðulegi forseti. Ef ríkisreksturinn væri fyrirtæki, Ísland ehf., væri stöðugt verið að leita leiða til hagræðingar í rekstri, sameiningar rekstrareininga, minnkunar yfirbyggingar, útvistunar verkefna. Ekkert slíkt er að finna í fjárlögum um ríkisreksturinn. Til að gæta sanngirni eru margar góðar tillögur í frumvarpinu um stafrænar lausnir og þjónustu og því ber að fagna. En áfram ætlar ríkisstjórnin að halda sig við rúmlega 200 ríkisstofnanir og opinber hlutafélög, mörg hundruð ráð og nefndir starfa áfram og vel á þriðja tug sendiskrifstofa um allan heim munu starfa óbreyttar. Fjöldi ríkisfyrirtækja mun áfram fá að standa í samkeppni við einkareksturinn, oft með peningum úr ríkissjóði. Ráðuneytin halda áfram að blása út og sem dæmi stofnaði þessi ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili 248 nýjar nefndir til viðbótar við allar þær sem voru starfandi. Ríkisstjórnin er komin langt frá ábyrgum og skynsamlegum ríkisrekstri. Svo sýnir ríkisstjórnin versta fordæmið sem hugsast getur með því að bæta við tveimur ráðuneytum sem kosta um 300 milljónir á ári. Þessi fjölgun ráðuneyta hefur engan tilgang annan, sýnist mér, en þann að fjölga ráðherrum svo að valdahlutföllin milli stjórnarflokkanna haldist. Þvílík sóun á skattpeningum almennings og virðingarleysi gagnvart skattgreiðendum.

Við þurfum að muna að við erum að reka land sem er minna að íbúafjölda en fjöldi borga í Evrópu sem við þekkjum. Ég spyr hvort þörf sé fyrir alla þessa yfirbyggingu og stjórnunarkostnað við rekstur svona lítils lands. Ég tel að 50 ríkisstofnanir, ekki 200, sex sendiráð, ekki 26, og sex ráðuneyti myndu duga þessu landi svo að dæmi séu tekin. Við þingmenn þurfum að hafa það í huga að meginhlutverk hins opinbera er að veita íbúum landsins betri þjónustu og bæta rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja, enda byggist batinn í ríkisfjármálum á því að fyrirtæki landsins hafi bolmagn til að vaxa, fjárfesta og skapa ný störf.

Virðulegi forseti. Við getum verið sammála um að allir íbúar landsins okkar eigi að hafa aðgang að grunnþjónustu ríkisins og að lágmarkslífsviðurværi og öryggi allra sé tryggt með opinberum útgjöldum. Um þetta erum við sammála. En ríkið hefur tekið að sér hlutverk sem er komið langt fram úr þessari grunnþjónustu. Peningar skattgreiðenda fara í verkefni sem ríkið ætti ekki að vera að sinna og þarf ekki að sjá um. Fjárlögin sýna fjölmörg dæmi um slíkt. Hugsanlega þarf að kenna ráðamönnum þjóðarinnar að segja stundum nei við nýjum útgjöldum. Það virðist vera of auðvelt að sannfæra þingið um aukin útgjöld. Hér samþykkjum við 1.000 milljarða skattheimtu með því að ýta á grænan takka. Ég hvet hv. þingmenn að setja sig oftar í fótspor skattgreiðenda áður en við samþykkjum skattahækkanir og aukin útgjöld. Við þurfum að spyrja okkur í hvert skipti þegar við samþykkjum ný útgjöld hvort knýjandi þörf sé á þeim eða hvort þeim megi sleppa. Heimilin í landinu og öll fyrirtæki spyrja þessarar spurningar á hverjum einasta degi. Á ensku er spurt hvort útgjöldin séu, með leyfi forseta, „nice to have“ eða „need to have“. Ábyrg ríkisfjármál eru málefni dagsins í dag. Við sýnum ábyrgð með því að gæta hófsemi í útgjöldum og velta hverri krónu fyrir okkur áður en hún er innheimt sem skattar og gjöld hjá fólkinu í landinu. Við í Viðreisn munum sýna þessari ríkisstjórn öflugt og nauðsynlegt aðhald og sýna þannig skattgreiðendum á Íslandi fulla virðingu.