152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárlög við 2. umr. Það er nú ýmislegt komið fram þannig að ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið, en mig langar að nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi langar mig að nefna það sem er mögulega eitt helsta afrek ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem er að hafa sameinað hina misleitu stjórnarandstöðu þannig að lögð hefur verið fram nánast fordæmalaus breytingartillaga við frumvarpið frá fulltrúum fjögurra flokka í fjárlaganefnd, í tíu liðum um breytingar sem þessir fjórir flokkar eru sammála um að þurfi að gera á fjárlögum til að þau horfi í framfaraátt. Stjórnarandstöðunni var oft legið á hálsi á síðasta kjörtímabili fyrir að vera sundurlynd, en hér sést að í mátulegu mótlæti, eins og við höfum fengið að upplifa af hálfu ríkisstjórnarinnar, er hægt að ná saman um ýmislegt.

Ég vík kannski að einstaka tillögum hér á eftir en mig langar að byrja á efni frumvarpsins sjálfs. Fyrst langar mig að nefna, sem við ræddum aðeins við 1. umr., þann einkavæðingartón sem er hér og þar í frumvarpinu og er hér og þar í verkum ríkisstjórnarinnar. Við þekkjum hvernig verið er að einkavæða hluta vegakerfisins með einkaframkvæmdum. Þegar frumvarp um samvinnuverkefni í samgönguframkvæmdum fór í gegnum þingið var vísað til Vaðlaheiðarganga sem módelsins sem horfa ætti til. En í þessu fjárlagafrumvarpi er einmitt að koma í ljós að það módel gengur einfaldlega ekki upp. Vaðlaheiðargöng náðu ekki að endurfjármagna lán sem komið var á tíma þannig að ríkið þarf að hlaupa þar undir bagga. Ég hefði því haldið að kannski væri tilefni til frekari naflaskoðunar á því hvort þetta módel gangi yfir höfuð upp og ég hygg að við í umhverfis- og samgöngunefnd munum skoða það nú eftir áramót. Alla vega mun ég beita mér fyrir því.

En svo er náttúrlega, eins og við höfum oft rætt, mikil einkavæðing fyrirhuguð á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, eins og átti sér stað með Íslandsbanka þar sem hlutur var seldur á það miklu undirverði að fólk sem var aflögufært til að taka þátt í því hlutafjárútboði gat stungið dágóðum ágóða í vasann á mjög stuttum tíma.

En það sem mig langar kannski helst að nefna í þessu samhengi er 6. gr. fjárlaga, varðandi sölu á húsnæði. Það hefur nefnilega verið plagsiður fólks sem nálgast hið opinbera út frá ákveðinni hugmyndafræði að hið opinbera eigi helst ekki að eiga neitt heldur eigi það að kaupa þjónustu og leigja aðstöðu og vera lítið annað en eitthvert útvistunarbatterí á kostnað almennings. Það sem út úr þessu kemur er oft að hið opinbera og ríkið greiðir þjónustuna hærra verði en ef haldið væri á henni innan húss. En þetta veldur því líka að ýmiss konar uppbygging verður síður á forsendum hins opinbera, það verða kannski verktakar sem ráða meira en ríkið hvar miðja opinberrar þjónustu rís. Það er nefnilega dálítið umhugsunarefni hversu umfangsmiklar heimildir eru til eignasölu í fjárlagafrumvarpinu, 6. gr. þess, og líka á hvaða svæðum þessar eignir eru. Svo að ég nefni nokkur dæmi þá er lagt til að veita heimild til að selja húseignir við Guðrúnartún og Borgartún, þar sem Vegagerðin var með aðsetur, og þar rétt hjá, við Rauðarárstíg og Laugaveg 114–116, þar sem — nei, ég man ekki alveg hvað var þar. Og þar á sömu slóðum, lögreglustöðin við Hverfisgötu 113–115. Þetta er allt saman húsnæði sem ekki gegnir því hlutverki sem það gegndi áður, það er alveg eðlilegt að flytja aðgerðamiðstöð Vegagerðarinnar á rúmbetra svæði og lögreglunni þarf að koma fyrir í nútímalegra húsnæði með ýmsum öðrum örmum framkvæmdarvaldsins. En er endilega eðlilegt að ríkið selji frá sér allar þessar eignir frekar en að horfa kannski til þess hvort það geti ekki mótað sér einhvers konar skipulagsstefnu fyrir opinbera þjónustu, stefnu um það að ríkið reyni t.d. að eiga húsnæði miðsvæðis og sem víðast um borgina þannig að fólk geti sótt sér þjónustu á fleiri staði, frekar en að þurfa að ferðast langar vegalengdir til að sækja þá þjónustu sem það þarf að sækja í eigin persónu?

Þar að auki eru þetta reitir á alveg ofboðslega spennandi svæðum. Þetta eru gjarnan byggingar nálægt ákveðnum hnútapunktum í uppbyggingu borgarlínunnar sem eru allt svæði þar sem framtíð höfuðborgarsvæðisins verður mótuð. Þetta er það svæði þar sem byggð mun breytast hvað mest á næstu árum og áratugum, fólki fjölgar og atvinnustarfsemi verður fjölbreyttari. Mér finnst það því ákveðin skammsýni hjá ríkinu að ætla að selja þessar eignir frá sér án þess að athuga betur hvað hægt væri að gera með þessi svæði. Af því að það er pólitísk ákvörðun t.d. að hrúga allri þjónustu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu fyrir ofan Smáralind þannig að besta leiðin til að sækja þá þjónustu sé að aka, frekar en að koma kannski fyrir starfsstöðvum ríkisins hér og hvar um borgina þannig að fólk geti gengið þangað.

Önnur eign sem er lagt til að veita heimild til sölu á er hér í næsta nágrenni við þinghúsið, hinum megin við Austurvöll, og hýsir Vínbúðina í Austurstræti. Það kom mér dálítið á óvart að Vínbúðin í Austurstræti væri í húsnæði í eigu ríkisins. En planið væri að flytja starfsemina úr því húsnæði í eitthvert leiguhúsnæði á miðborgarsvæðinu. Svo þegar kom í ljós hvaða leiguhúsnæði kæmi helst til greina úr því forútboði sem fór fram á vegum Vínbúðarinnar, þá var það ýmist úti á Granda eða úti á Kirkjusandi, reyndar líka á Hallveigarstíg. Það kom mér á óvart að Vínbúðin hugleiði það að taka starfsemi sem staðsett er í miðbæ Reykjavíkur þar sem hærra hlutfall íbúa en annars staðar í borginni kýs að nota ekki einkabíl dagsdaglega — að skerða eigi þjónustu hins opinbera við þann hóp með því að selja ofan af búðinni húsnæðið sem er í eigu ríkisins hér á besta stað til þess að fara að leigja til langs tíma, væntanlega á einhverjum verri kjörum, húsnæði einhvers staðar lengst í burtu.

Ég má til með að nefna líka þau skringilegheit að lagt er til að selja tollhúsið við Tryggvagötu þó að fram hafi komið, og er reyndar talað um í fjárlagafrumvarpinu sjálfu, að það hús eigi til framtíðar að hýsa starfsemi Listaháskóla Íslands. Listaháskólinn er jú vissulega sjálfseignarstofnun vegna þess að hreintrúarstefna hægri manna sem stýrðu ríkisstjórn á þeim tíma þegar skólinn var stofnaður leyfði ekki að stofna fleiri opinbera skóla. Fyrir vikið stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að vera sennilega eina ríkið í okkar heimshluta sem ekki býður upp á listnám á háskólastigi á vegum hins opinbera, heldur eingöngu í skóla sem verður að taka talsvert hærri skólagjöld en eðlilegt er í opinbera kerfinu. Ef það naumt skammtaða rekstrarfé Listaháskólans á síðan að fara í að greiða leigu til einhvers aðila sem ríkið ætlar að selja tollhúsið, þá held ég að þessi díll fari að verða lélegri með hverri mínútunni sem líður. Hérna held ég að sé bara mjög eðlilegt að meiri hlutinn andi í kviðinn og hætti við að selja tollhúsið, ef hugmyndin er að koma Listaháskólanum þar fyrir, og stígi náttúrlega skrefið til fulls og taki Listaháskólann í fangið og geri hann að einum af okkar opinberu háskólum, eins og hefði náttúrlega átt að vera frá upphafi.

En þetta, bara svo ég taki utan um þennan punkt minn, snýst um það að frekar en að selja frá sér eftirsóknarverðar eignir á besta stað í bænum, eða mörgum bestu stöðum í bænum, þá sé full ástæða til að ríkið móti sér stefnu um sínar húseignir sem tekur mið af því hvernig eignarhald ríkisins og notkun ríkisins á húseignum getur stutt við sjálfbært skipulag í þéttbýli. Það er ekki núna. En nú er tækifæri til að gera þetta áður en ríkið selur þær frá sér til þess eins að skipuleggja alla opinbera þjónustu á jaðri borgarinnar vegna þess að þar hefur einhver verktaki ákveðið að bjóða ríkinu 50 ára samning þar sem hægt er að vera með lekan peningakrana um langa framtíð.

Talandi um sjálfbært skipulag þá verð ég nú að nefna hvað það virkar snautlegt sem er lagt til að bæta við í stuðning við almenningssamgöngur í frumvarpinu. Þó að hreintrúarstefnan í nálgun hægri stjórna á ríkisfjármál segi að það sé annað að leggja pening í þjónustu en í fjárfestingu í steypu og eignum þá er ekki hægt að segja annað en að fjárfesting í almenningssamgöngum er sennilega besta græna fjárfestingin sem hægt væri að ráðast í í dag. Í dag er það svo að um þriðjungur af samfélagslosun Íslands, sem sagt þriðjungur af þeirri losun sem fellur utan viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir og fyrir utan losun af völdum landnotkunar, er vegna vegasamgangna. Þetta er sú losun sem við þurfum að keyra alveg ofboðslega hratt niður ef við ætlum að ná markmiðum Parísarsáttmálans fyrir 2030, af því að, það er kannski rétt að rifja upp, frú forseti, bara í þar næstu viku verður komið árið 2022 og þá eru ekki nema átta ár til 2030. Á þessum átta árum þyrftum við helst að vera búin að losa okkur við eiginlega allan útblástur gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum. Við gerum það ekki með því að leggja til 150 millj. kr. inn í almenningssamgöngur, heldur einhverjar upphæðir sem eru miklu, miklu hærri. Það eru líka upphæðir sem skila sér beint í betra samfélag. Þá eykst þjónusta strætó. Þá er hægt að hraða uppbyggingu borgarlínu. Þá er hægt að auðvelda fólki að sleppa þeim gríðarlegu útgjöldum sem felast í að þurfa að eiga bíl. Þá er hægt að draga úr þörf á uppbyggingu umferðarmannvirkja fyrir einkabílinn og þá er hægt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í nærsamfélaginu af völdum þessara bíla, eins og t.d. hávaðamengun og svifryksmengun sem er ekki í sama mæli af almenningssamgöngum. 150 milljónir er auðvitað skref í rétta átt, svo maður sé jákvæður, en það er bara alveg ótrúlega lítið skref. Það er kannski það atriði sem mig langar að nefna varðandi umfang aðgerða til að takast á við loftslagsvána í þessu fjárlagafrumvarpi og í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er hreint út sagt allt of lítið.

Ég ætla að draga hér upp góða umsögn Ungra umhverfissinna sem segja þar sama hlutinn og þau hafa sagt mjög oft áður. Þau benda á að ef litið er á það sem þarf til að fjármagna loftslagsaðgerðir á heimsvísu, ef litið er á skýrslu Sameinuðu þjóðanna um takmörkun hnattrænnar hlýnunar við 1,5°C, þá þarf heimurinn að leggja til þess verkefnis 6% af — verg landsframleiðsla á heimsvísu, kölluðum við það verga heimsframleiðslu? Alla vega 6% af þeirri tölu sem samsvarar vergri landsframleiðslu allra ríkja heims. En Ísland nýtur ákveðins forskots vegna þess að stór hluti af þessum 6% hefur þegar verið unninn hér á landi vegna þess að við eigum jarðvarma til að hita upp húsin okkar og við eigum endurnýjanlega orku sem framleiðir rafmagnið í húsunum okkar. Þetta eru áskoranir sem við tókumst á við á síðustu öld sem mjög mörg ríki heims þurfa að takast á við á þessari öld. Vegna þess að við njótum þess forskots þá getum við sagt sem svo að þessi 6% lækki niður í 4% af vergri landsframleiðslu miðað við þá stöðu sem Ísland er í. Þá er kannski rétt að spyrja sig hver ætti að leggja það fram. Það væri hægt að slumpa á t.d. að ríkið axlaði helminginn af þessu, tæki 2% af landsframleiðslu, og legði í loftslagsmálin, hin 2% væru sameiginlegar byrðar sveitarfélaga og atvinnulífsins.

Segjum sem svo að þetta viðmið Sameinuðu þjóðanna hljóðaði upp á 2% af landsframleiðslu sem ríkið ætti að leggja til loftslagsmála. Upphæðin sem er í þessu fjárlagafrumvarpi er 13 milljarðar. Það er hálft prósent af landsframleiðslu. Þannig að ef við ætluðum að standa okkur það vel að við værum bara í takt við það sem Sameinuðu þjóðirnar telja að heimurinn þurfi að gera þyrftum við að fjórfalda framlögin. Það þyrftu ekki að vera 13 milljarðar heldur eitthvað á milli 50 og 60 milljarðar á ári. Þetta hljómar eins og einhver rosaleg upphæð og er það auðvitað. En þetta er fjárfesting sem skilar sér. Alveg eins og fjárfestingin í almenningssamgöngunum skilar sér í betra samfélagi, þá skilar hver einasta króna, sem sett er í að styðja við græn og réttlát umskipti samfélagsins, sér í betra samfélagi, ekki bara fyrir komandi kynslóðir og ekki bara árið 2030 þegar kemur að uppgjöri Parísarsáttmálans, heldur bara strax í dag. Það er svo ótal margt sem skilar sér strax í dag.

Og svo þarf ekki einu sinni öll þessi upphæð að vera hrein útgjöld af hálfu ríkisins. Hér langar mig að nefna ívilnanir til hreinorkubíla sem dæmi. Niðurfelling á gjöldum á ökutæki er helmingur af því sem lagt er til loftslagsmála í dag. Þetta er alveg rosalega útgjaldaþungur hluti af því sem ríkið er að gera í loftslagsmálum og það er ekki nema helmingur af því eða þar um bil sem rennur til raunverulegra hreinorkubíla, rafmagns- og vetnisbíla. Restin fer að mestu leyti í tengiltvinnbíla sem ganga jú að hluta fyrir raforku en líka að hluta fyrir bensíni. Svo er einhver hluti af þessu sem rennur til bensínbíla og dísilbíla sem bílaleigurnar kaupa vegna þess að frekar en að segja við atvinnulífið að það eigi að bera sín 2% með sveitarfélögunum, á meðan ríkið beri 2% sjálft, ákvað Alþingi að hlaupa undir bagga með bílaleigunum og segja: Við erum til í að niðurgreiða bensínbílana ykkar ef þið lofið að kaupa bara smávegis af grænni bílum sem við ætlum líka að niðurgreiða. Þannig að ríkið er búið að búa til mjög óskilvirkt og dýrt niðurgreiðslukerfi, þegar svona kerfi ætti auðvitað að byggja upp sem eitthvert jafnvægiskerfi, þar sem væru auknar álögur á það sem mengar. Það væri hægt og bítandi verið að hraða því að fólk sjái sér ekki hag í að kaupa bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti með því að auka álögur á þá bíla og nota þær tekjur sem ríkið hefur af því að styðja fólk í því að fjárfesta í sjálfbærum samgöngum. Og þá ekki bara rafmagnsbílunum sem eru, þrátt fyrir mikla niðurgreiðslu, mjög dýrir og henta bara ákveðnum þjóðfélagshópum, heldur nota það til að byggja upp almenningssamgöngur eða að styðja fólk til að kaupa rafmagnsreiðhjól, af því að það er sennilega ekkert fjárfestingarátak sem gæti skilað meiri og hraðari samdrætti í losun frá samgöngum en það að rafhjólavæða þéttbýlið með hraði.

Þetta er hugsun sem vantar almennt varðandi gjaldtöku í umhverfismálum hjá ríkisstjórninni, eins og við ræddum í einhverjum andsvörum fyrr í umræðunni. Horfið var frá hækkun kolefnisgjalds sem ákveðin hafði verið af ríkisstjórninni sem sat árið 2017. Það var eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að hverfa frá þeirri hækkun. Og síðan hefur hugmyndafræðin á bak við kolefnisgjald staðið fullkomlega í stað. Núna er kolefnisgjald engan veginn jafn hátt og það þyrfti að vera til að endurspegla þann raunkostnað sem hlýst af notkun jarðefnaeldsneytis, kostnað sem samfélagið og umhverfið bera af þeirri notkun. Það mætti sennilega alla vega þrefalda eða fjórfalda það til að það endurspeglaði þann kostnað. En það er breyting sem ekki er hægt að gera með einu pennastriki og henda út í samfélagið vegna þess að þá styðjum við ekki við réttlátu umskiptin sem þurfa að eiga sér stað. Kolefnisgjaldið þarf að hækka, en almenningur þarf að sjá að það skili einhverju. Þannig er hægt að ná samstöðu um þá aðgerð.

Ef ég vitna í umsögn frá Landvernd þá leggur hún til slíka hækkun í skrefum en hvetur líka til þess að gjaldið sé notað t.d. til að tryggja að tekjulágir hópar beri ekki óeðlilega þungar byrðar af hækkuðu kolefnisgjaldi með því að innleiða einhvers konar tekjutengt endurgreiðslukerfi og að kolefnisgjald á tilteknar atvinnugreinar mætti að hluta nota til að styrkja leiðandi fyrirtæki í þeim greinum til að innleiða loftslagsvænni tækni. Það er eiginlega furðulegt að við séum ekki komin lengra í þessu vegna þess að það er akkúrat svona sem alþjóðastofnanirnar, eins og Alþjóðabankinn og OECD, sem mæla með kolefnisgjaldi sem einhverju skilvirkasta verkfæri í baráttunni gegn loftslagsvánni, leggja höfuðáherslu á; að halda jafnvægi á milli þessa, að það sé gagnsætt fyrir almenning, að þetta sé ekki tekjustofn fyrir ríkið, ekki enn ein leið fyrir ríkið að afla sér fjár, heldur ákveðin leið fyrir ríkið til að millifæra pening sem fólk og fyrirtæki greiða samkvæmt mengunarbótareglunni, yfir á fólk og fyrirtæki sem þarf að hjálpa til að stíga grænu skrefin.

Það væri hægt að nefna ótal mörg dæmi. En mig langar bara að nefna eitt dæmi, af því að mér fannst það svo skemmtilegt, frá nágrönnum okkar á Írlandi. Þar er kolefnisgjaldið þannig að það fer bara í pott og helmingur af þeim potti fer síðan aftur út til þess að gera endurbætur á íbúðarhúsnæði, að skipta um kyndiofna þannig að þeir hætti að brenna gasi og fara yfir í rafmagn, og að skipta út einföldu gleri, bæta einangrun í þaki og útveggjum, að gera allar þær úrbætur á húsnæðinu sem þarf til að það hætti að vera neikvætt út frá loftslagssjónarmiðum. Þetta leiðir ekki bara til þess að það dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna þessa húsnæðis, heldur verður þetta líka betra húsnæði fyrir fólkið sem býr í því. Það verður verðmætara. Þannig að ábatinn, eins og í öllum þessum aðgerðum, snýst ekki bara um eitthvert tölugildi koltvísýrings, heldur um lífsgæði fólks sem býr í þessum húsum. Helmingur fer sem sagt í þessar endurbætur á húsnæði hjá Írunum. Þriðjungur fer síðan í félagslegar millifærslur, fer bara í að styðja tekjulágt fólk, styðja barnmargar fjölskyldur, styðja við alls konar fólk sem þarf viðbótarstuðning umfram það sem almannatryggingakerfið býður upp á. Lykillinn að þessu írska kerfi er náttúrlega sá að þarna er líka allt tekjutengt upp í rjáfur þannig að, svo við búum bara til kannski pínu ósanngjarna en skýra mynd, tekjuháa fólkið sem hefur efni á því að kaupa sér dýra, mengandi bíla þarf bara að borga aukalega fyrir það. En sá peningur er tekinn og færður til tekjulága fólksins til að bæta aðstæður þess.

Þetta er eitthvað sem hefði verið hægt að skoða á síðasta kjörtímabili ef ríkisstjórnin hefði ekki ákveðið að það eina sem hún ætlaði að gera í sambandi við kolefnisgjald væri að hætta við hækkunina sem síðasta ríkisstjórn hafði ákveðið, taka bara eina netta hækkun í byrjun kjörtímabils og svo ekki söguna meir. Það mátti ekki snerta á því meir.

Vandinn er að frá þeim tíma er ríkisstjórnin búin að skila inn uppfærðum markmiðum til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, fór úr 40% upp í 55% í sameiginlegu markmiði með Evrópusambandinu og Noregi og boðaði núna í stjórnarsáttmála í byrjun þessa kjörtímabils að þetta 55% markmið verði ekki í samfloti með ESB heldur sjálfstætt landsmarkmið Íslands, eins og við börðumst nú nokkur fyrir hér á þingi síðasta vetur og gekk svo langt að við lögðum fram breytingartillögu sem stjórnarliðar felldu hér í júní. En það er alltaf gott að fólk sjái að sér. Þessi auknu tölulegu markmið þýða að það þarf að gera meira. Og þá þarf að fara að snerta á hlutum eins og því að endurskoða kolefnisgjald, endurskoða gjöld á ökutæki þannig að hagrænu hvatarnir þjóni grænu umskiptunum miklu betur. Til að það gerist verða stjórnarliðar að hætta að vera svona feimnir við að snerta á báðum hliðum. Bonus-malus er þetta stundum kallað, svipa og gulrót myndi það útleggjast á íslensku. Við getum ekki verið bara með gulræturnar á grænu starfseminni en algjörlega látið hjá líða að vera með svipuna á þeirri mengandi. Því miður er það staðan í dag.

Ég held að ég láti þetta duga varðandi umhverfis- og loftslagsmálin, ég ætlaði nú ekki að taka svona mikinn tíma í að ræða þau en svona lendir maður bara í, frú forseti.

Mig langar að nefna breytingartillögur sem ég nefndi í upphafi ræðunnar, sameiginlegar breytingartillögur frá fulltrúum Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins í fjárlaganefnd í tíu liðum sem, eins og ég sagði áðan, eru mjög merkilegt plagg fyrir þær sakir að það er ekkert sjálfsagt í fjárlagaumræðu að stjórnarandstöðuflokkar sameinist með þessum hætti um breytingartillögur. En það sýnir kannski að vankantarnir á fjárlagafrumvarpinu eru svo skýrir að þessir fjórir flokkar eiga mjög auðvelt með að finna stórar og einfaldar breytingar sem þarf að gera á frumvarpinu til að það þjóni samfélaginu betur. Þetta eru meira að segja svo ábyrgar tillögur að þær eru fjármagnaðar þannig að þetta eru ekki bara útgjaldatillögur, heldur eru gerðar tillögur að breytingu á tekjuöflun ríkisins til að jafna þetta út. En þó svo væri ekki þá eru þær nógu hóflegar til að rúmast innan útgjaldasvigrúmsins sem nota má í fjárlagagerðinni.

Mig langar að nefna sérstaklega eina tillöguna, af því að við ræddum hana aðeins hér í gær — ja, eða í nótt, það hefur verið komið fram yfir miðnætti þarna, það var sem sagt aðfaranótt þess dags sem við lifum í dag. Það er sú tillaga stjórnarandstöðunnar að verja 900 milljónum til þess að fjármagna niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu, að fjármagna eitthvað sem Alþingi samþykkti með lögum að gera. Það er nefnilega svo skrýtið, frú forseti, að í júní í fyrra, fyrir einu og hálfu ári, samþykkti Alþingi, að mig minnir mig með engum mótatkvæðum, að sálfræðiþjónusta ætti að fara inn í sama niðurgreiðslukerfi og sjúkraþjálfun hafði gert ári áður, bara vegna þess að það er sanngjarnt, vegna þess að það er þörf á þessari þjónustu og þetta er eitthvað sem fólk á ekki að þurfa að meina sér um. Þetta er alltaf sanngjarnt, en þetta er kannski bara lífsnauðsynlegt núna þegar andleg áhrif af Covid-faraldrinum og öllum þeim aðgerðum sem gripið er til til að hemja útbreiðslu Covid, þau andlegu áhrif, fara að koma fram hjá fólki þá á það ekki að þurfa að meina sér um hjálp bara vegna þess að það er ótrúlega langur biðlisti á heilsugæslunni eða að viðkomandi á ekki 20.000 kall til að fara til sálfræðings. Þess vegna lagði minni hlutinn til að leggja 900 millj. kr. í þennan lið, 900 millj. kr. til að standa við lög sem Alþingi samþykkti, vegna þess að bara strax eftir að Alþingi samþykkti þessi lög þá birtist fjármálaráðherra í viðtali við fréttastofu þar sem hann benti á að þetta væri nú allt ófjármagnað, og kom síðan með næstu fjárlög sín og þar var þetta enn ófjármagnað. Og svo komu fjárlögin núna og þá er þetta enn þá ófjármagnað. Þannig að stjórnarliðarnir sem klöppuðu sér á bakið fyrir að hafa staðið svona aldeilis með andlegu heilbrigði fólks, þegar við samþykktum lög um niðurgreiðslu á sálfræðikostnaði, eru búnir að sýna allt aðra hegðun í framhaldinu. Þessi tillaga minni hlutans, sem var eitt af því sem var til skoðunar í þinglokasamningunum í gær, varð tilefni til þess að fjármálaráðherra mætti hingað grár fyrir járnum, alveg hundsjóðandi bandillur yfir því að stjórnarandstaðan dirfðist að setja þetta framlag á oddinn í þinglokasamninga, að ná því fram að Alþingi standi við gefin loforð og niðurgreiði sálfræðiþjónustu. Á þetta verður aldrei fallist, sagði ráðherrann hér í ræðustól, fullur manngæsku.

Frú forseti. Það er þess vegna skemmtilegt að geta haldið hér á þskj. 240, sem var að koma úr prentun, frá fjárlaganefnd allri þar sem fallist hefur verið á þetta, að vísu ekki alla upphæðina, stjórnarliðar tímdu ekki að fullfjármagna þetta, en játaði á sig vanefndir með því að nú er lagt til 150 millj. kr. framlag til að fjármagna niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Við hljótum að fagna þeim sigri sameinaðrar stjórnarandstöðu gegn óbilgjörnum og ósanngjörnum fjármálaráðherra gærdagsins.