152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa yfirferð hjá hv. þingmanni. Það er ýmislegt sem hægt væri að ræða þarna. Mig langar kannski að byrja á því að nefna varðandi þetta samflot Íslands með Evrópusambandinu í loftslagsmálum — sem ég held að hafi verið mjög skynsamlegt skref að stíga á sínum tíma, ég efast um að stjórnvöld eða þingið hefðu haft drifkraft í að setja stóriðjunni stólinn fyrir dyrnar án þess — hvort við þurfum ekki bara að fara að líta á það samstarf sem lítinn hluta af loftslagsstefnu stjórnvalda. Þetta samstarf hefur einhvern veginn verið meginhlutinn, en við þurfum t.d. að skoða á næstu árum hvernig við getum fengið stóriðjuna til að draga hraðar úr losun. Viðskiptakerfi Evrópusambandsins dugar mögulega ekki þannig að við þurfum að kanna hvort sérstök kolefnisgjöld þurfi til viðbótar til að hvetja framþróun þar en líka til að við séum ekki að sætta okkur við lægsta samnefnara á milli metnaðarfyllri ríkja og kolafíklanna í Evrópu, þ.e. að við séum að ganga eins langt og Ísland getur en ekki eins langt og málamiðlunin í Brussel náði.

Síðan snerti þingmaðurinn á atriði sem hefur einmitt náð að ergja mig dálítið mikið, þessi klifun á því að hér hafi verið lögð fram fyrsta fullfjármagnaða áætlun nokkurrar ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum. En markmiðin ná einfaldlega ekki utan um vandann, svo fjarri því. Þau ná ekki einu sinni utan um þann samdrátt í losun sem er talað um að áætlunin eigi að ná utan um. En sá samdráttur er ekki nema 35%, sem er allt of lítið miðað við það sem vísindin kalla á að við gerum.