152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyrði hv. þingmann minnast á sóttvarnareglur, smitsjúkdómalækni, réttarríkið, sóttvarnaaðgerðir og stjórnarskrárvarin réttindi. Hann fór yfir víðan völl og ég veit að þetta er umræða um fjárlög en ég get ekki annað en spurt hv. þingmann í fyrsta lagi: Hvað vill hv. þingmaður í sóttvarnaaðgerðum á Íslandi? Nú er kerfi í gangi sem felst í því að embættismaður, sóttvarnalæknir, sendir minnisblað til heilbrigðisráðherra sem tekur ákvörðun fyrir hönd Stjórnarráðsins sem ráðherra um sóttvarnaaðgerðir. Hvað vill hann í sóttvarnaaðgerðum og hvað vill hann varðandi bólusetningu landsmanna? Hann talar mikið um mannréttindi og réttarríki en ég vil minna á það að í e-lið 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eru tilvik sem heimila það að frelsi einstaklingsins sé skert vegna smitsjúkdóma. Það er gert ráð fyrir því í helsta mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili, að það megi skerða frelsi einstaklinga. Ég get ekki annað séð en að sóttvarnaaðgerðir sem takmarka samkomur og annað slíkt vegna smitvarna standist það ákvæði.

Svo talaði hann um þingbundna stjórn, að það sé varla þingbundin stjórn á Íslandi ef ég skildi rétt. Ég er nýliði hér á þingi og ég get alveg fullyrt að núverandi ríkisstjórn styðst við þingmeirihluta hér á Alþingi. Ég er ekki hluti af þessum þingmeirihluta og það eru reglurnar sem eru hér í gildi, í öllum nefndum þingsins og öllum störfum þingsins og verða það í atkvæðagreiðslu hér á eftir.

Hvað á hann nákvæmlega við varðandi sóttvarnaaðgerðir og bólusetningar, hvað vill hann þar, og hvað á hann við með að þingbundin stjórn sé ekki við lýði á Íslandi eða a.m.k. að mjög takmörkuðu leyti?