152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér skilst að þetta hafi verið jómfrúrræða hans og óska honum til hamingju með hana. Mér skilst að það sé hefð hérna að fara ekki í andsvör við jómfrúrræðu en ég geri það í krafti þekkingar hans, mikillar lagalegrar þekkingar og reynslu, þannig að ég vildi endilega koma upp í andsvör við ræðu hans. Ég vil taka fram að það er mjög mikilvægt að borgari í landinu segi skoðanir sínar á sóttvörnum og taki þátt í lýðræðislegri umræðu um þær, hafi sínar skoðanir á bólusetningum og öðru slíku. Það er grundvallaratriði. En mín skoðun er sú varðandi sóttvarnaaðgerðir að kerfið sem við höfum núna sé prýðilegt að mörgu leyti. Við erum með mjög öflugan sóttvarnalækni. Ég vil nota tækifærið hér til að vara við því að það verði skipuð nefnd sem eiga að taka ákvörðunarvaldið af núverandi sóttvarnalækni. Ég tel að í svona stríði sem núna er sé mikilvægt að leiðtogarnir sem eru, þeir einstaklingar, geti tekið snöggar ákvarðanir. Ég hef a.m.k. fylgt þeim sóttvarnareglum sem hafa verið settar, veit ekki hversu oft ég hef farið í sóttkví og próf og annað slíkt.

Varðandi þessi mál þá tel ég að við höfum staðið okkur ágætlega. Íslendingar eru mjög góðir í neyðarstjórnun þegar hamfarir dynja yfir. En þetta er orðið langt tímabil og farið að reyna mjög á þolgæði fólks. Ég hélt að eftir bólusetningar mínar þá væri þetta búið en svo virðist ekki vera, við erum enn þá með grímur og annað slíkt. En ég persónulega reyni að fylgja þeim reglum sem eru settar og ég tel mikilvægt að almenningur geri það líka eftir bestu getu og sé ekki að grafa undan því kerfi sem við erum þó með núna í þessu litla samfélagi okkar.