152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að staldra lengi við þetta. Ég ætla nú bara að koma hingað upp til að loka þessari umræðu og þakka fyrir hana. Mig langar þó aðeins að fara yfir það helsta. Forgangsmál ríkisstjórnarinnar er að stuðla áfram að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á því kjörtímabili sem við horfum fram í. Það er hlutverk og á að vera hlutverk ríkisstjórnarinnar að leggja sitt af mörkum til að stuðla að umhverfi lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu og vera í góðu samráði við alla aðila vinnumarkaðarins.

Það er brýnt og afar mikilvægt að við endurheimtum styrka fjárhagsstöðu ríkissjóðs og tryggjum sjálfbærni ríkisfjármálanna til lengri tíma og til þess þurfum við aukna verðmætasköpun. Að sama skapi þarf ríkissjóður að leggjast á árarnar með peningastefnunni og stuðla að lækkandi verðbólgu og efnahagslegum stöðugleika. Það er auðvitað vert að minna á að gert er ráð fyrir a.m.k. 180 milljarða kr. halla á næsta ári, sem er í kringum 5% af vergri landsframleiðslu.

Við höfum beitt ríkisfjármálunum af krafti og árangurinn hefur skilað sér bæði í auknum efnahagsumsvifum og betri skuldastöðu en við gerðum ráð fyrir. Við sjáum hvað atvinnulífið hefur tekið við sér og sem betur fer hefur atvinnuleysi minnkað. Við leggjum áfram mikla áherslu á öflugan stuðning við nýsköpun, rannsóknir og þróun sem nýja stoð fyrir efnahagslífið og það styður um leið við vaxtargetu hagkerfisins. Fjárfestingar ríkisins jukust umtalsvert á liðnu kjörtímabili, og þær voru líka talsverðar á síðasta ári og þessu, til að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónuveirunnar, eins og við þekkjum. Ef við horfum til fjárfestinga á þjóðhagsgrunni er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að þær nemi alls í kringum 88 milljörðum, eða 2,5% af vergri landsframleiðslu, sem er töluvert umfram langtímameðaltal fjárfestingar.

Við höldum áfram á þeirri vegferð að byggja upp innviði. Nú erum við til að mynda að svara ákalli hjúkrunarheimila um hækkun daggjalda og áfram er aukið í heilbrigðismál. Ný heilbrigðisstefna til ársins 2030, sem samþykkt var hér á Alþingi, markar stefnu fyrir heilbrigðiskerfið á komandi árum. Eins og við þekkjum er stærsta einstaka fjárfestingarverkefni áframhald byggingar nýs Landspítala og er gert ráð fyrir að við verjum í kringum 14 milljörðum til þess á komandi ári. Að auki er gert ráð fyrir tæplega 3 milljarða kr. framlagi til að halda áfram að styrkja Landspítalann til að bregðast við heimsfaraldrinum. Eins og ég hef áður komið inn á verður ráðist í opnun sex hágæslurýma og 30 nýrra endurhæfingarrýma og komið á fót sérstakri farsóttadeild í Fossvogi. Við munum auka framlög til Sjúkratrygginga um tæpa 5 milljarða. Þar vegur þyngst aukinn kostnaður vegna lyfjakaupa.

Við gerum ráð fyrir 800 millj. kr. aukningu framlaga til heilsugæslunnar til að halda áfram að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, auk þess sem framlög til geðheilbrigðismála hækka tímabundið í eitt ár um 400 millj. kr. Við höldum áfram á þeirri vegferð að styrkja enn frekar heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað notenda og styrkjum enn frekar þverfaglega teymisvinnu þar sem heilsugæslan mun verða leiðandi þegar kemur að heilsueflingu og til að fylgja eftir aðgerðaáætlun um lýðheilsu og forvarnir.

Til að minnka álag á sjúkrahúsin, ekki síst bráðamóttökuna, verður þjónustan aukin og heilsugæslustöðvum fjölgað. Geðheilbrigðisþjónusta verður áfram efld fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni, og sérstök áhersla verður lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni. Áfram verður haldið að styrkja geðheilsuteymin sem sett hafa verið á laggirnar um allt land og stefnt að því að þjónustan sé fjölbreytt og nái að sinna ólíkum þörfum.

Það er mér líka ánægjuefni að segja frá því að á fundi fjárlaganefndar fyrr í dag lagði meiri hlutinn til að 150 millj. kr. viðbótarframlag verði lagt til Sjúkratrygginga Íslands til að fjármagna niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu í kjölfar samninga sem Sjúkratryggingar Íslands munu gera. Allt er þetta í þágu geðheilbrigðisþjónustu.

Við höfum líka rætt um viðbótarprósentuhækkun á bætur örorku- og ellilífeyrisþega nú um áramótin. Með aðgerðunum sem hér eru lagðar til mun það skila sér í vasann þar sem skerðingarhlutfallið fer úr 25% í 11% af grunnlífeyri og aldurstengdri örorkuuppbót. Þetta eru fyrstu skrefin í áttina að gagnsærra og réttlátara kerfi. Þau eru smá en við erum lögð af stað.

Í stjórnarsáttmálanum eru áform um að gera atlögu að því að auka möguleika fólks með skerta starfsgetu til endurhæfingar og atvinnuþátttöku. Til þess þurfa bæði hið opinbera og hinn almenni vinnumarkaður að fjölga sveigjanlegum störfum og hlutastörfum. Við viljum líka tryggja afkomu þeirra sem ekki geta tekið þátt á vinnumarkaði.

Ég ítreka að í frumvarpinu er gert er ráð fyrir að frítekjumark eldri borgara verði tvöfaldað um næstu áramót og verði 200.000. Það er mikilvægt að halda áfram og tryggja eldra fólki fjölbreytta búsetu og þjónustu. Þar verðum við að horfa út fyrir rammann. Ég bind vonir við að það verkefni sem er hjá borginni og ríkinu eða heilbrigðisráðuneytinu, tilraunaverkefni í þessa veru, skili góðum árangri og verði fyrirmynd þess sem koma skal.

Á síðustu árum hafa útgjöld vegna loftslagsmála aukist mikið og við höldum áfram á þeirri braut, enda hefur Ísland sett sér sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun fyrir 2030 miðað við 2005. Framlög til málaflokksins hækka um milljarð og verða alls rúmir 13 milljarðar á næsta ári. Það er í takt við stefnu stjórnvalda um að auka framlög til loftslagsmála um milljarð á ári fram til ársins 2031 og hafa þau þá aukist um 10 milljarða á tímabilinu. Til viðbótar verða settar 600 millj. kr. til að hraða orkuskiptum í samgöngum. Við lögfestum líka skattalega hvata til að styðja við orkuskipti og loftslagsmarkmið stjórnvalda.

Virðulegi forseti. Nú fer að líða að lokum þessarar umræðu og vil ég árétta tvennt hér. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til 640 millj. kr. aðhald í ferðakostnaði á Stjórnarráðið og stofnanir, í anda loftslagsstefnu stjórnvalda. Það má kannski segja að við höfum brúað vel kostnaðinn við breytt Stjórnarráð og dálítið umfram það.

Svo vil ég leiðrétta það sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar sem gagnrýndi það hér í morgun að saumað væri að umboðsmanni Alþingis. Því langar mig að árétta að það er þannig að umboðsmaður Alþingis fær 36 milljónir til að bæta við tveimur stöðugildum lögfræðinga og aðhaldið er afturkallað eins og óskað var eftir.

Þessi forgangsröðun í útgjaldaaukningu sem ég hef hér farið yfir, og margt er ósagt, er í samræmi við skýra stefnu nýrrar ríkisstjórnar um að byggja undir sterkt samfélag velferðar og jafnra tækifæra.

Að lokum vil ég segja: Tíminn til fjárlagavinnunnar hefur verið knappur, afar knappur, eins og hér hefur komið fram og allir hafa áttað sig á. Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf og fyrir að hafa allan tímann verið samstarfsfús og viljað greiða leið þessarar vinnu. Ég vona svo sannarlega að það gefi tóninn fyrir komandi kjörtímabil.