152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Á síðasta kjörtímabili leitaði ég eftir upplýsingum um hversu mikið ríkissjóður greiddi í eftirlit með sjávarútveginum; Fiskistofu, Hafró, Landhelgisgæslunni o.s.frv. Kostnaðurinn við það var einungis um 500 millj. kr. lægri en veiðigjöldin voru að meðaltali á hverju ári, sem þýðir að við fáum 500 millj. kr. á ári í arð af þessari sameiginlegu auðlind okkar á meðan arðgreiðslurnar til útgerðanna eru margfalt hærri. Þessi tillaga er smábrot af því sem þarf til þess bara að jafna þetta, skipta til helminga. Það er hægt að gera svo margt til þess að ná þessu, t.d. leggja niður Verðlagsstofu skiptaverðs, bara það. Þá þyrfti útgerðin í alvörunni að borga alvöruverð fyrir það sem hún veiðir og borga sjómönnum alvörulaun fyrir það sem þeir veiða.