152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:02]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um hvort halda eigi aftur af niðurskurði á sjúkrahúsunum í landinu okkar. Það stefnir í 2 milljarða kr. gat þegar kemur að rekstri Landspítalans, og einnig ef við tökum með Sjúkrahúsið á Akureyri, í ljósi þess að tekin var ákvörðun í þessum fjárlögum um að bæta ekki við svokölluðum reiknuðum raunvexti inn í fjárheimildir til spítalans. Það þýðir að ekki er gert ráð fyrir því að spítalinn þurfi að fá fjárheimildir til að mæta öldrun og fjölgun þjóðar. Öldrun og fjölgun þjóðar er óhjákvæmilegt ástand. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir kostnað sem því fylgir. Við erum að leggja hér fram fjárheimildir í þessum fjárlögum, eða meiri hlutinn og ríkisstjórnin, til að draga úr álagi annars staðar í kerfinu til þess eins að minnka svo nauðsynlegar fjárheimildir til að mæta auknu álagi. Þetta mun lenda á spítalanum síðar á árinu.

Þess vegna segjum við í Samfylkingunni: Já.