152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Nú hefur náðst samkomulag um að hækka fjárframlög sem ætluð voru til niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu úr 100 milljónum, sem var allt of lítið, í 250 milljónir sem er enn þá allt of lítið en vissulega meira en til stóð og þar af leiðandi fagnaðarefni. Vonandi gengur betur núna að semja um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu vegna þess að þessi mikilvæga þjónusta þarf að komast í gagnið sem fyrst, sér í lagi í ljósi ástandsins. Þessi niðurstaða, þessi hækkun, kemur til vegna samstöðu stjórnarandstöðunnar, samstöðu hennar með geðheilbrigði þjóðarinnar og mikilli áherslu okkar á að gera betur í þessum málaflokki en líka mikilli áherslu okkar á að þingið standi við gefin loforð, að þegar við samþykkjum mál þá fjármögnum við þau líka. Það er bara sjálfsagt að gera það. Þetta er skref í þá átt.