152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:15]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Það er mjög ánægjulegt að samkomulag hafi tekist við meiri hlutann um að fjárlaganefnd legði fram þessa tillögu. Það hefur lengi verið kappsmál okkar í Viðreisn að tryggja sálfræðiþjónustu með þeim hætti að Sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði. Alþingi samþykkti lög þess efnis fyrir rúmu ári en það hefur skort á fjármagn og líka skort á að Sjúkratryggingar Íslands hafi gengið til samninga við sálfræðinga og það er til vansa. Það er ekki gott ef fjárveitingavaldið veitir fjármuni til stofnunarinnar til að standa undir samningagerð til að veita tiltekna þjónustu ef það strandar síðan allt í sjúkratryggingastofnuninni. Ég held að við þingmenn verðum að sameinast um að sjá til þess að Sjúkratryggingar Íslands gangi til þeirra samninga sem henni er gert að gera.