152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:20]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Þessari breytingartillögu ber auðvitað að fagna og hef ég þegar greitt henni atkvæði mitt. En mig langar engu að síður aðeins að benda á fáránleikann í þessu máli sem er sá að það er í raun fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar, minni hlutans, sem samningar nást um þetta. Þetta eru í rauninni bara sporslur upp í eitthvað sem ríkisstjórninni ber lagaskylda til að gera. Það er ekki svo að minni hlutinn sé að fara fram á eitthvað algjörlega splunkunýtt sem kemur upp úr okkur sjálfum og okkur dettur í hug. Við erum einfaldlega að fara fram á að hér sé möguleiki á að fylgja lögum. Ég fagna þessu þó að fjárhæðin sé auðvitað ekki nema brotabrot af því sem þarf til. En þetta var það eina sem samkomulag náðist um að þessu sinni, sem er fáránlegt út af fyrir sig.