152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:25]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú bíða 600 manns eftir því að komast á Vog. Framlag ríkisins í dag fjármagnar aðeins 70% af innlagnargetu Vogs, restin, 30%, er fjármögnuð með sjálfsaflafé. Meiri hluti fjárlaganefndar kemur í þessum fjárlögum, eftir 2. umr., aðeins til móts við um þriðjung af neyðarkalli frá SÁÁ án frekari rökstuðnings. Ég vil taka fram að þetta er í algeru ósamræmi við áherslur stjórnvalda á að auka virkni og framleiðni í samfélaginu, til viðbótar við þá augljósu stöðu að hér er brotið á mannréttindum fólks sem þarf á nauðsynlegri þjónustu að halda.

Við skulum svo hafa það í huga, í ljósi þess að hér er oft talað um börnin í samfélaginu, að einstaklingar á Vogi eru ungt fólk, oft með ung börn, sem glímir við mikinn félagslegan vanda. Margt af því fólki hefur ekki fasta atvinnu og margir eru með opin barnaverndarmál eða í dómskerfinu. Það er mjög mikilvægt að við styrkjum þessa starfsemi til að treysta grunninn til frambúðar. Þess vegna segir Samfylkingin já.