152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:59]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði með svipaðri tillögu og í tilvikinu um málefni fatlaðs fólks. Þetta snýst um að draga úr þeirri kjaragliðnun sem hefur átt sér stað. Það er ótrúlegt að horfa upp á það enn eitt árið í röð að fólki þyki það ásættanlegt að við sjáum meiri hækkanir á almennum markaði en meðal þessa hóps. Þarna er hópur af fólki sem getur ekki treyst á atvinnutekjur, getur ekki nýtt sér hækkun sem varð á frítekjumarki aldraðra, sem um 3% aldraðra geta nýtt sér. Þetta er fólk sem hefur starfað við líkamlega erfið störf, fólk sem þarf að treysta á grunnlífeyri sér til tekjuauka og það er algerlega ólíðandi að við séum að horfa upp á kjaragliðnun ár eftir ár. Þetta mun bara gera það erfiðara að komast yfir vandann. Þess vegna segjum við í Samfylkingunni já.