152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[19:02]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um að tempra húsnæðismarkaðinn. Íbúðaverðshækkanir eru í dag helsta ástæða þess að verðbólga er langt yfir verðbólgumarkmiði. Þetta er rót efnahagsóstöðugleika í landinu. Þetta kostar ríkissjóð 13 milljarða aukalega í rekstrar- og vaxtakostnað á ári. Þetta kostar fyrirtækin í landinu gríðarlegan pening. En fyrst og fremst kostar þetta fólkið í landinu öryggi. Það er eitthvað að í velferðarríki þar sem engin vopn virðast vera á hendi til að tryggja fólki húsaskjól á viðráðanlegu verði. Þetta er leið til þess að halda aftur af verðhækkunum. Við viljum tvöfalda fjármagnið sem fer í stofnframlög í uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Þetta er leið til þess að veita leiguhúsnæði á ódýru og hagkvæmu verði til fólks í þörf. En að sama skapi er þetta líka fyrir aðra hópa; fatlað fólk, námsmenn, ekki bara tekjulágt fólk, fólk sem er á því tímabili í lífi sínu að það þarf á ódýru húsnæði að halda. Að sama skapi heldur þetta líka aftur af húsnæðisverðshækkunum á kaupendamarkaðnum. Þess vegna segjum við í Samfylkingunni já.