152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[19:08]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér leggjum við til, fjórir flokkar í minni hlutanum, 3 milljarða kr. viðbótarfjárheimild í málaflokk loftslagsmála sem við setjum undir sérstakar ráðstafanir, því að þetta er málaflokkur sem dreifist á fjölmörg ráðuneyti. Þetta er auðvitað ekki nóg til lengri tíma. Hér á landi hefur verið samþykkt aðgerðaplan, nú síðast í stjórnarsáttmála, um 55% samdrátt í losun fyrir 2030, en þrátt fyrir viðbótarsamdrátt í losun sem stefna á að, fylgir því ekkert viðbótarfjármagn. Þetta er leið okkar m.a. í minni hlutanum, til að aðstoða við þetta markmið. Það liggur alveg fyrir að við þurfum að hækka fjárheimildir í þessum málaflokki. Þetta er fjárfesting til framtíðar því að það mun bitna á okkur síðar meir ef við setjum ekki fjármagn í græna atvinnusköpun, styðjum ekki tækniþróun og lausnir á þessu sviði til að tryggja það að við séum enn þá framarlega í þessum málaflokki þegar líður á næsta áratug. Þess vegna segjum við í Samfylkingunni já.