152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[19:16]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ekki bætast fleiri nöfn á lista yfir heiðurslaun listamanna að þessu sinni. Nefndin, allsherjar- og menntamálanefnd, sem er talsvert nýliðuð, er þó nokkuð sammála um að endurskoðun laganna sé nauðsynleg og verður það okkar fyrsta verk á nýju ári. Við lifum í öðrum heimi en var þegar lög um heiðurslaun listamanna voru sett. Við viljum kalla fagfélög og aðra hagsmunaaðila listafólks að borðinu. Nú hallar á konur þrátt fyrir ákvæði um annað í lögunum. Á tímum metoo-byltingarinnar er mikilvægt að óttast ekki að taka samtalið og horfa til annarra þátta en afreka á listasviðinu þegar þeim forréttindum sem felast í heiðri og greiðslum opinbers fjár er úthlutað. Heimild er í fjárlögum fyrir 25 listamönnum á heiðurslaunum og því ekki útilokað að bætt verði á listana á nýju ári þegar endurskoðun hefur átt sér stað og lýkur.