152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[19:20]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í a-lið í þessari atkvæðagreiðslu er verið að greiða atkvæði um það hvort veita eigi heimild til sölu á Íslandsbanka. Hér er verið að hefja einkavæðingu bankanna á ný með því að veita heimild til sölu á öllum hlutum í Íslandsbanka. Síðasta einkavæðing bankanna fór fram árið 2003. Nokkrum árum seinna varð hrunið, í október 2008. Hér er um gríðarlega mikilvæga heimild að ræða sem Alþingi er að veita, og hvar er umræðan? Ég hef ekki orðið var við neina umræðu um þessa heimild og hver skilyrðin eigi að vera fyrir henni. Það sem skiptir máli er ekki verðið við sölu á banka, það eru gæði eigendanna. Það er aðalmálið, hverjum á að selja. Þá lexíu lærðum við í október 2008. Ég hef á tilfinningunni að við höfum ekki lært þá lexíu. Ef það á að selja bankana þá á að nota þá til endurskipulagningar (Forseti hringir.) á bankamarkaðnum og það eru tvö markmið, samfélagsbanki eða að tengjast norrænum bankamarkaði, sem er skilvirkasti (Forseti hringir.) og þróaðasti bankamarkaður í heimi. — Ég segi já.