152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli fyrir fyrirspurnina. Allir vinna er verkefni sem verið hefur við lýði í mjög langan tíma í íslensku samfélagi. Það hefur skilað ávinningi í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi. Það er enn slaki í byggingariðnaði á Íslandi, það er ljóst. Og þegar gefið hefur á bátinn í íslensku efnahagslífi hefur mannvirkjageirinn verið sá geiri sem hefur þurft að bera mjög þungar byrðar þar og hefur lent mjög harkalega í því. Við þekkjum það öll frá efnahagsáfallinu sem varð hér í kjölfar bankahrunsins að það högg sem byggingargeirinn fékk á sig var gríðarlegt og hefur hann varla borið sitt barr síðan. Átakið hefur skilað ávinningi í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi og mig langar að fá að minnast á að í því samhengi benti Skúla Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisskattstjóri, á að með því að gefa vinnuna ekki upp komi kaupandi sér hjá því að greiða virðisaukaskattinn og þá geti seljandi vinnunnar sloppið við að gefa söluna upp til tekjuskatts. Þannig að ég held að það sé óyggjandi að það sé ávinningur af því að þessi vinna sé gefin upp og sé uppi á borðum.