152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Hv. þingmaður, ég þakka fyrir. Mig langar að koma aftur að átakinu Allir vinna þar sem hv. þingmaður talar um mikinn kostnað og mikil útgjöld. Við söknuðum þess í nefndinni að sjá ekki sömuleiðis frá ráðuneytinu, eða eingöngu, útreikninga á útgjaldahliðinni, eins og það komi ekkert inn til baka til ríkisins. Okkur hættir til að gleyma því að það að öll vinna sé gefin upp til skatts skilar sér auðvitað til ríkisins. Það er greitt útsvar, það kemur tekjuskattur, það eru tekjur á móti. Það er ósanngjarnt að horfa bara á annan öxulinn hér og sjá eingöngu útgjaldahliðina. Það koma vitaskuld tekjur þarna inn á móti.

Hv. þingmaður talar um að þetta sé dýrt átak. Það er gríðarlega dýrt fyrir íslenska ríkið að ætla að hækka frítekjumarkið á alla. Það hleypur á fleiri milljörðum. Þannig að við höfum lagt á það áherslu að hækka frítekjumark á atvinnutekjur. Við þekkjum það líklega flest að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast. Við viljum sjá að fólk sé virkt í sem lengstan tíma, hvort sem það eru karlar eða konur.