152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar framsöguna. En það eru þrjú atriði sem mig langar til að koma inn á. Það er í fyrsta lagi Allir vinna-verkefnið. Í öðru lagi er það það sem snýr að nýorkubílunum og í þriðja lagi það sem snýr að hækkuðu frítekjumarki lífeyrisþega.

Mig langar fyrst til að spyrja hv. þingmann um atriði er varðar rafmagnsbíla, þ.e. skattlagningu. Ég held að hér sé verið að gera töluvert alvarleg mistök hvað það varðar að ýta áfram þeirri þróun sem verið hefur hér í því að fjölga nýorkubílum, að taka tengiltvinnbílana út úr þessari lausn, þessari nálgun. Þótt við horfðum bara á það með hvaða hætti þróun framleiðslu þessara bíla er og til sjónarmiða Bílgreinasambandsins, þá held ég að það væri skynsamlegt að viðhalda þessu a.m.k. í eitt og hálft til tvö ár til viðbótar. En ef við horfum á það hvernig skráningu þessara bíla er háttað þá eru þeir meira og minna, allir þessir 100% rafbílar, hér á suðvesturhorninu. Í póstnúmeri 101–230 eru rétt um 75% þessara bíla, sýnist mér. Það er samanlagt 71 slíkur bíll í gamla Norðurlandskjördæmi vestra. Það er mikill munur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni hvað þetta varðar og í því ljósi, þótt ekki væri vegna annars, þætti mér skynsamlegt að viðhalda þessu enn um sinn. En spurningin til hv. formanns er: Telur formaðurinn skynsamlegt að endurskoða þetta milli 2. og 3. umr., því að hér er verið að skera á þetta frá og með næstu mánaðamótum, sem eru eftir nokkra daga?