152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022. Það er ánægjulegt að jafn ólíkir flokkar og Viðreisn, Flokkur fólksins, Píratar og Samfylkingin hafi getað sameinast hér um ákveðin grundvallarsjónarmið, bæði hvað varðar gagnrýni á fjárlagabandorm ríkisstjórnarinnar og um ákveðna sýn á það hvernig eigi að forgangsraða í ríkisfjármálum og skattamálum í þágu heildarhagsmuna.

Lög um opinber fjármál leggja línurnar um það hvernig haga skuli fjárlagagerð og þar er gert ráð fyrir að fjármálaáætlun sé lögð fram að vori og umræður um áætlunargerð og stefnumótun í ríkisfjármálum fari þannig fram á fyrri helmingi árs. Þannig gæfist tími á haustþingi til ítarlegrar og vel ígrundaðrar vinnu við fjárlagafrumvarpið sjálft. Hugsunin var sem sagt að dreifa álaginu af meðferð fjárveitingavalds nokkuð jafnt yfir árið og stuðla þannig að vandaðri lagasetningu og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Eins og við vitum ákváðu stjórnarflokkarnir að halda alþingiskosningar að hausti. Hæstv. fjármálaráðherra rökstuddi þá ákvörðun í sjónvarpsviðtali á þann veg að hann vildi ekki gefa frá sér völd. Hann vildi halda þeim sem lengst. Það er hins vegar alveg ljóst að þessi tilhögun hefur unnið gegn því markmiði laga um opinber fjármál að meðferð fjárveitingavalds Alþingis dreifist jafnt og þétt yfir árið og nú erum við að súpa seyðið af því. Ef þingkosningar hefðu verið haldnar að vori hefði undirbúningur fjárlagafrumvarpsins staðið yfir síðasta sumar og vandlega undirbúið frumvarp ásamt tengdum málum getað legið fyrir strax við upphaf haustþings. Þess í stað var fjárlagafrumvarpið lagt fram 30. nóvember síðastliðinn eftir margra vikna rannsókn á kosningalagabrotum og eftir sögulegan seinagang við stjórnarmyndun. Í stað þess að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gæti fengið vandaða málsmeðferð hefur Alþingi þannig þurft að fjalla um málið undir alveg gríðarlegri tímapressu. Þessi stutti málsmeðferðartími þýðir að umsagnarfrestur hefur verið skemmri en eðlilegt getur talist. Það dregur úr möguleikum almennings, stofnana, samtaka, fyrirtækja og hagsmunaaðila til að koma athugasemdum á framfæri og þýðir líka að allar breytingartillögur eru unnar á handahlaupum. Líkurnar á mistökum margfaldast. Allt ber þetta vott um skeytingarleysi og vanvirðingu gagnvart hlutverki og ábyrgð Alþingis sem löggjafar- og fjárveitingavalds. Við í minni hlutanum erum a.m.k. sammála um að svona eigi ekki að gera hlutina. Ég vona að allir flokkar geti sameinast um að halda þingkosningar næst að vori frekar en hausti.

Víkjum þá að efnisatriðum frumvarpsins. Við í minni hlutanum ákváðum að rýna fyrst og fremst þessar veigamestu breytingar sem boðaðar eru í fjárlagabandorminum. Sjónarmið okkar eru sett fram í þremur nokkuð ítarlegum köflum. Svo bætum við nokkrum atriðum við í lokin sem okkur fannst ekki hægt að láta hjá líða að fjalla stuttlega um. Byrjum á hinu nýja viðmiði við uppfærslu skattleysis- og þrepamarka. Þetta er eitt af nýmælum frumvarpsins, breyting sem felur í sér að hér eftir munu þrepa- og skattleysismörk tekjuskattskerfisins þróast í takt við samtölu verðbólgu sem mæld er með vísitölu neysluverðs og framleiðnivaxtar. Þarna er byggt á hugmyndum úr skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa frá 2009 en yfirlýst markmið breytinganna er að koma böndum á raunskattsskrið undanfarinna ára. Þetta raunskattsskrið sem þarna er viðurkennt felur í sér að skattbyrði hefur aukist sjálfkrafa og meira hjá tekjulægri hópum en þeim tekjuhærri vegna þess að þrepa- og skattleysismörk hafa ekki haldið í við launaþróun.

Það er fagnaðarefni að fjármála- og efnahagsráðherra horfist í augu við þessa hækkun skattbyrðar sem hefur orðið á hans vakt. Það er enn meira fagnaðarefni að hæstv. ráðherra vilji bregðast við henni. Hér í frumvarpinu er farin leið sem felur í sér ákveðna vörn gegn því að launaþróun umfram langtímaframleiðslugetu hagkerfisins komi niður á tekjuöflun og sveiflujöfnunaráhrifum tekjuskattskerfisins til langs tíma. Þetta er góðra gjalda vert en við í minni hlutanum bendum þó á að í frumvarpinu er vikið frá tillögu sérfræðingahópsins sem ég nefndi áðan þegar kemur að vali á mælikvarða framleiðnivaxtar án þess að fram komi neitt voðalega sannfærandi rök fyrir því. Það er ekki að finna mikla greiningu á því eða það rökstutt sérstaklega hvers vegna þessi mælikvarði er valinn frekar en annar og hvers vegna litið er til þessa tiltekna tímabils frekar en einhvers annars tímabils, hvort sem það væri lengra eða styttra tímabil.

Það truflar okkur líka að í greinargerð fjárlagabandormsins gætir ákveðinnar svartsýni um möguleika íslensks atvinnulífs til aukinnar framleiðni og bættrar nýtingar framleiðniþátta. Þetta kemur svolítið á óvart í ljósi orðræðu ráðherra um mikilvægi þess að hlaupa hraðar og vaxa út úr veiruástandinu, að við þurfum að treysta á þetta. Við verðum nefnilega að hafa í huga að framleiðniþróun er ekki einhver fasti heldur veltur hún m.a. á pólitískum ákvörðunum um fjárfestingarstig hins opinbera, um tæknivæðingu og hvort búin séu til skilyrði fyrir virka samkeppni og verðmætasköpun. Val á mælikvarða framleiðninnar má ekki verða tilviljunarkennt og það verður að vera gagnsæi um það á hvaða sjónarmiðum það val byggir. Það er líka mikilvægt að framleiðniaukningin sé ekki vanmetin af því að það kemur þá niður á launafólki þegar við erum komin með svona viðmið. Hér verður sérstaklega að líta til þess að þrepaskipting tekjuskattskerfisins og stígandinn í efri hluta tekjustigans í skattkerfinu er minni á Íslandi en víða í nágrannalöndunum þannig að skattskrið hefur af þeim sökum miklu meiri áhrif á tekjulægri hópa hér á landi en víða annars staðar.

Við í minni hlutanum erum sammála um að fram þurfi að fara frekari greining á kostum og göllum þess að miða skattleysis- og þrepamörk við samtölu verðbólgu og framleiðniaukningar og bera það saman við kosti og galla þess að miða t.d. við launavísitölu eins og verkalýðshreyfingin hefur lengi kallað eftir.

Þá vil ég ræða um almannatryggingar og frítekjumörkin þar. Samkvæmt forsendum fjárlaga munu greiðslur almannatrygginga hækka um 4,6% fyrir ellilífeyrisþega á næsta ári og 5,6% hjá örorkulífeyrisþegum. Það er ekki í takt við fyrirséðar taxtahækkanir, meðaltaxtahækkanir á almennum vinnumarkaði, sem þýðir að fjárlögin eru ávísun á áframhaldandi kjaragliðnun milli launa og lífeyris. Þetta er auðvitað bara pólitísk ákvörðun, höfum það í huga, það er ekki eitthvert náttúrulögmál að láta fólk sem reiðir sig á lífeyri sitja eftir. Sú ákvörðun er sérstaklega ámælisverð í ljósi þess að fjöldi lífeyrisþega býr við fátækt. Samkvæmt mælaborði Tryggingastofnunar þurfa um 14.000 lífeyrisþegar á Íslandi að draga fram lífið á minna en 300.000 kr. á mánuði fyrir skatt. 80% öryrkja eiga erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýlegri skýrslu Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Svo er ójöfnuður meðal eldri borgara meiri á Íslandi en meðal almennings. Þetta er öfugt við það sem við sjáum á flestum hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi, Danmörku og Finnlandi. Nærtækasta leiðin til að sporna gegn þessum lágtekjuvanda eldra fólks og öryrkja er að hækka óskertan lífeyri en auk þess teljum við að draga verði úr tekjuskerðingum, þessum tekjutengdu skerðingum í almannatryggingakerfinu, og þá sérstaklega að sjá til þess að þær bíti ekki jafn snemma, jafn neðarlega í tekjustiganum og raun ber vitni. Það er algjört lykilatriði.

Í þessum fjárlagabandormi sem við erum að ræða er lögð til sú eina breyting á skerðingarkerfi almannatrygginga eldra fólks að frítekjumark atvinnutekna sé tvöfaldað. Það hækki úr 100.000 kr. á mánuði í 200.000 kr. á mánuði. Það er athyglisvert að þetta er líka eina handfasta tillagan í almannatryggingamálunum, sérstaklega í almannatryggingum eldra fólks, sem við sjáum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta er sem sagt alger lykilaðgerð, forgangsaðgerð, ríkisstjórnarinnar í almannatryggingamálum. Okkur í minni hlutanum fannst því mikilvægt að fá fram upplýsingar um það hvernig ábatinn af þessari aðgerð dreifist, bæði eftir tekjutíundum og eftir kyni. Nefndin óskaði eftir minnisblaði um það og félagsmálaráðuneytið og Tryggingastofnun tóku saman þessar upplýsingar. Og hver er niðurstaðan? Hún kemur ekki endilega á óvart en það er samt svolítið sláandi að sjá þetta svona svart á hvítu. Aðgerðin gagnast 1.300 einstaklingum u.þ.b. eða um 3% aldraðra sem eru á skrá hjá TR. Þar af eru langflestir í efstu tekjutíundunum, sérstaklega tveimur efstu tekjutíundunum. 67% eru karlar, 33% eru konur. Það að styðja sérstaklega við þennan hóp um leið og kjaragliðnun launa og lífeyris heldur áfram og frítekjumark lífeyristekna hjá eldra fólki stendur í stað er forgangsröðun sem okkur í Samfylkingunni, Pírötum, Flokki fólksins og Viðreisn, okkur sem saman stöndum að þessu nefndaráliti, hugnast ekkert sérstaklega. Það er ekkert voðalega góð félagsmálapólitík að gera þetta að stóru forgangsmáli. Við verðum að skoða allar svona breytingar í samhengi við almannatryggingakerfið í heild og höfum í huga að með þessari breytingu, með hækkun á þessu frítekjumarki, verður komin upp sú staða eftir áramót að frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki verður orðið átta sinnum hærra en almenna frítekjumarkið sem tekur til lífeyristekna. Það verður áfram bara 25.000 kr. á mánuði og eftir það byrja skerðingarnar að bíta.

Við í minni hlutanum viljum af þessu tilefni minna á að lífeyristekjur eru ekkert annað en frestaðar atvinnutekjur fólks sem hefur greitt í lífeyrissjóði. Samkvæmt minnisblaði félagsmálaráðuneytisins er alveg ljóst að hvert lítið skref sem væri tekið til hækkunar hins almenna frítekjumarks myndi dreifast miklu jafnar, bæði eftir tekjutíundum og eftir kyni, en þessi hækkun sem stjórnarmeirihlutinn leggur áherslu á.

Við tökum líka undir gagnrýni sem kemur fram í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um frumvarpið. Þar er bent á að með þessari ólíku meðhöndlun tekna er sjóðfélögum í lífeyrissjóðum mismunað. Okkur finnst ámælisvert að í greinargerð fjárlagabandormsins eru engin rök færð fyrir því mikla misræmi sem er verið að búa til milli þessara hópa né er gerð minnsta tilraun til að slá einhverju mati á það hvaða áhrif þetta misræmi kann að hafa. Sú pólitíska ákvörðun að hækka aðeins frítekjumark atvinnutekna en láta hið almenna frítekjumark óhreyft bitnar sérstaklega á fólki sem hefur unnið erfiðisvinnu um ævina og þarf einfaldlega að setjast í helgan stein heilsu sinnar vegna, getur ekki unnið endalaust. Þessir hópar munu þurfa að þola harkalegri skerðingar og hærri jaðarskatta en fólk sem enn hefur starfsgetu.

Svo finnst okkur kaldranalegt að í fjárlagabandorminum er aðeins gert ráð fyrir hækkun frítekjumarks hjá eldra fólki en ekki hjá öryrkjum. Rifjum aðeins upp hvað stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram að sérstaklega verði horft til þess að bæta möguleika örorkulífeyrisþega til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Í spurningakönnun sem var gerð fyrir Öryrkjabandalagið kom fram að skerðingar í almannatryggingakerfinu eru ein helsta hindrunin í vegi aukinnar atvinnuþátttöku þessa hóps. Við vitum líka að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum hefur staðið í stað síðan 2009. Það væri vel yfir 200.000 kr. Ég held að það væri hátt í 250.000 kr. til 260.000 kr., ef það hefði fylgt verðlagi á þessum tíma. Þess vegna hljótum við að spyrja okkur hvernig stendur eiginlega á því að stjórnarmeirihlutinn vill ríghalda þessu frítekjumarki í 109.600 kr. á mánuði, halda því hátt í helmingi lægra en frítekjumarki atvinnutekna hjá eldra fólki. Það hafa engin skynsamleg rök verið færð fyrir því. Það eina sem við heyrum er alltaf sami söngurinn um heildarendurskoðun sem eigi að fara fram einhvern tímann í framtíðinni en hefur ósköp lítið spurst til. Þessi fyrirheit um einhverja heildarendurskoðun eru svo notuð sem afsökun fyrir því að neita fólki um kjarabót hér og nú. Þetta er alltaf sama sagan; neita fólki um möguleika til að sækja sér bjargir utan almannatryggingakerfisins. Er það t.d. í samræmi við sjálfstæðisstefnuna? Er það í samræmi við hugmyndafræði þeirra þriggja flokka sem standa að þessari ríkisstjórn, að refsa fólki fyrir að vinna? Við vorum að ræða Allir vinna áðan. Þá komu fram sjónarmið um að horfa þyrfti á heildarmyndina, að ekki mætti bara horfa á tekjurnar sem glötuðust. Hvernig væri að hugsa svolítið um málefni tekjulægsta fólksins, fólks sem getur ekki unnið, fólks sem er með skerta starfsgetu, hvernig væri það nú?

Höfum það á hreinu að stefna ríkisstjórnarinnar felur í sér að öryrkjar í hlutastarfi á vinnumarkaði munu áfram þurfa að þola meira en 70% jaðarskattlagningu vegna samanlagðra tekjutenginga í almannatryggingakerfinu og skattlagningar, 70% jaðarskattur, 70% skattur af hverri viðbótarkrónu sem þeir vinna sér inn. Til samanburðar: Hver er jaðarskatturinn hjá okkur í þessum sal? 46,25%, er það ekki? Það er jaðarskattur okkar hátekjufólksins. Við í minni hlutanum gagnrýnum þetta harðlega. Okkur finnst þetta óboðleg framganga gagnvart hópi sem reiðir sig á almannatryggingakerfið. Okkur finnst það alger lágmarkskrafa að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum fylgi frítekjumarki atvinnutekna hjá eldra fólki og hækki upp í 200.000 kr. strax eftir áramót. Hvað kostar það? Það kostar einhvers staðar á bilinu 1–2 milljarða. Til samanburðar kostar framlenging Allir vinna 7,2 milljarða á næsta ári. Þetta er samhengi hlutanna sem við erum að tala um hér. Við höfum a.m.k. lagt fram breytingartillögu um þetta. Við skorum á þingmenn allra flokka að greiða atkvæði með þeirri breytingu, sama í hvaða flokki þingmenn eru, sameinumst bara um þetta.

Ég ætla líka að fjalla aðeins um tekjugrunn ríkissjóðs almennt. Það hafa legið fyrir lengi mjög alvarlegir veikleikar í afkomu ríkisins og þeir voru ljósir áður en heimsfaraldurinn kom til sögunnar. Á þensluskeiðinu fyrir faraldurinn versnaði afkoma ríkissjóðs og hins opinbera. Hlutfall útgjalda af landsframleiðslu stóð í stað á sama tíma og hlutfall tekna lækkaði. Þetta er vandinn og þessari þróun verður að snúa við. Við þurfum að styrkja tekjuhlið ríkisins svo að ekki sé þetta hrópandi misræmi milli tekna og gjalda og sjá þannig til þess að sjálfbærni opinberra fjármála sé tryggð til langs tíma, til þess að tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Nú er efnahagsstaðan þannig að framleiðsluslakinn í hagkerfinu er á útleið. Verðbólga er langt yfir marki og það getur orðið töluverð áskorun næstu mánuði að halda aftur af henni. Við sjáum að Seðlabanki Íslands kallar eftir því, í umsögn um frumvarp til fjárlaga, að sýnt verði sem allra mest aðhald í ríkisfjármálum. Slíkt geri peningastefnunni auðveldara fyrir og dragi úr þörf á skörpum vaxtahækkunum. Það er í því samhengi sem við í minni hlutanum finnum okkur knúin til að benda á að hvers kyns ákvarðanir um skattstyrki verða að byggjast á vel ígrunduðum og málefnalegum sjónarmiðum og þar verður að taka tillit til hagsveiflunnar og stöðu einstakra atvinnugreina. Þá erum við að byggja á gögnum um stöðu þessara greina, ekki bara því sem okkur finnst. Eins og skrifstofa skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu bendir á, í minnisblaði til efnahags- og viðskiptanefndar, uppfyllir framlenging á endurgreiðslu um 100% virðisaukaskatts af vinnu í byggingariðnaði ekki þetta próf á tímum þegar verðbólga er langt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, vaxtastig fer hækkandi og atvinnugreininni gengur bara þokkalega. Þá verður að líta til þess að virðisaukaskattskerfið er stærsti einstaki tekjustofn ríkissjóðs og brýnt að einstökum atvinnugreinum sé ekki ívilnað sérstaklega nema að því hnígi sterk rök. Við sjáum að í hvert skipti sem veittar eru svona undanþágur koma beiðnir um fleiri undanþágur; af hverju ekki þessi hópur líka, af hverju ekki þessi atvinnugrein, af hverju ekki þessi? Það er miklu betra að byggja bara á sterku almennu virðisaukaskattskerfi, vera ekki endalaust að hola það að innan, guð minn almáttugur. Um leið og halda þarf aftur af ómarkvissum og þensluhvetjandi útgjöldum er mikilvægt að aðhaldsstigið, sem Seðlabankinn er m.a. að kalla eftir, komi líka fram á tekjuhliðinni, að það sé ekki látið bitna á grunnþjónustu, opinberri fjárfestingu, enda hafa ríkisvaldið og hið opinbera mjög mikilvægu hlutverki að gegna í þeim stóru samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem litið er til lýðfræðilegra breytinga, öldrunar þjóðarinnar eða til loftslagsmála, tæknivæðingarinnar.

Við í minni hlutanum hvetjum til aukinnar tekjuöflunar og að horft verði sérstaklega til skattlagningar fjármagns, eigna og hæstu tekna auk sanngjarnra og skynsamlega útfærðra auðlindagjalda. Að sama skapi teljum við mjög mikilvægt að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og höfum í huga að afkomuhorfur sveitarfélaga eru núna verri en þær voru þegar fjármálaáætlun var lögð fram. Hér má kannski skjóta því inn að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, ef ég man rétt, er sérstaklega minnst á að gistináttagjald eigi að renna til sveitarfélaga en nú er verið að fresta því að leggja gistináttagjald á nánast allt kjörtímabilið, þannig að það verður þá væntanlega á síðasta ári kjörtímabilsins sem þessi tekjustofn bætist við hjá sveitarfélögum.

Þegar gerðar eru breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta er mikilvægt að aðgerðir séu metnar bæði út frá áhrifum á losun gróðurhúsalofttegunda og áhrifum á mismunandi tekjuhópa. Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar sæta hækkanir á kolefnisgjaldi og öðrum tengdum gjöldum einfaldri 2,5% hækkun í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2022. Í ljósi þess að verðbólga mælist miklu hærri felur þetta í raun í sér raunlækkun á kolefnisgjaldi og kann að draga úr áhrifamætti þess milli ára. Þetta sætir furðu eftir allar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að sýndur verði aukinn metnaður í loftslagsmálum á þessu kjörtímabili. Hækkun kolefnisgjalda er nefnilega mjög áhrifarík leið til að sporna gegn losun. Grípa má til ýmissa aðgerða til að verja tekjulægri hópa fyrir áhrifum þess. Þá er kolefnisgjald sem grundvöllur fyrir styrktarkerfi nýsköpunar í mengandi atvinnugreinum tækifæri sem rétt væri að horfa til í auknum mæli.

Við í minni hlutanum teljum mjög brýnt að langtímaáætlun liggi fyrir um það hvað ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir á Alþingi hyggist fyrir varðandi græna tekjuöflun og grænar ívilnanir. Munum að flokkurinn sem leiðir ríkisstjórnina og veitti umhverfis- og auðlindaráðuneytinu forystu á síðasta kjörtímabili hafði á stefnuskrá sinni nú í aðdraganda kosninga að hækka kolefnisgjaldið í áföngum. Hins vegar er enga framtíðarsýn um græna tekjuöflun að finna í frumvarpinu sem við erum að ræða og ekki heldur í stjórnarsáttmála, ekki heldur í greinargerð fjárlaga.

Upplýsingar um raunverulegan árangur aðgerða og stefnumótun núverandi ríkisstjórnar til framtíðar eru óljósar og það gerir alla umræðu um einstakar aðgerðir ríkisstjórnarinnar mjög erfiða. Við vitum aldrei almennilega hver heildarhugsunin er þegar við erum að skoða hverja og eina breytingu. Við mælumst til þess að ráðin verði bót á þessu svo að við næstu umræðu um fjárlög og tengd mál verði umræðan á hærra plani.

Að lokum viljum við koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri: Í fyrsta lagi að Alþýðusamband Íslands hefur lýst því yfir að stuðningur stjórnvalda við húsnæðisöryggi og tilfærslukerfi launafólks muni ráða úrslitum í kröfum verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda kjarasamninga 2022 og 2023. Nærtæk leið til að leggja grunn að farsælli lendingu á vinnumarkaði væri að setja aukna fjármuni inn í barnabótakerfið og auka framboð á hagkvæmu íbúðarhúsnæði með hærri stofnframlögum ríkisins til almenna íbúðakerfisins. Hvorugt stendur til samkvæmt fjárlagafrumvarpi og fjárlagabandormi ríkisstjórnarinnar og enn bólar ekkert á því að loforð sem stjórnvöld gáfu þegar lífskjarasamningurinn var undirritaður, um aukin réttindi leigjenda og um aðgerðir gegn launaþjófnaði, verði efnd. Það er ekki gott veganesti inn í kjaraviðræður, það verður bara að segjast.

Annað atriði sem við viljum minnast á er að í skýrslu sérfræðingahóps, um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa frá 2019, kemur fram að víðtækur misbrestur sé á því að reglur um reiknað endurgjald séu virtar. Ætla megi að raunverulegur hluti atvinnutekna sé ranglega talinn fram sem fjármagnstekjur á Íslandi og í núgildandi regluverki felist verulegur upplýsingavandi fyrir skattyfirvöld þegar kemur að því að ákvarða aðilum í eigin rekstri eðlileg laun. Við í minni hlutanum teljum ámælisvert að ekki hafi verið brugðist við þessum ábendingum, svo sem með lagabreytingum þar sem fjármagnstekjur eru skilgreindar á grundvelli eigna atvinnurekstursins og viðbúinni ávöxtun líkt og gert er víða á Norðurlöndunum. Hagdeild ASÍ bendir á það í nýlegri skýrslu, Skattar og ójöfnuður: réttlátara og skilvirkara skattkerfi, að með aðgerðum sem takmarka möguleika til tekjutilflutnings megi auka tekjur ríkissjóðs um 3–8 milljarða kr. á ári og að sú skattbyrði myndi einvörðungu leggjast á tekjuhæstu 10% skattgreiðenda.

Við í minni hlutanum leggjumst líka gegn því að sóknargjöld séu hækkuð umfram þá fjárhæð sem við sjáum í frumvarpinu sjálfu. Það er okkar skoðun að ríkið eigi að hætta innheimtu sóknargjalda fyrr eða síðar fyrir trú- og lífsskoðunarfélög og að slík innheimta samræmist mjög illa nútímalegum hugmyndum um hlutverk ríkisins. Það er miklu réttara að trúfélög standi sjálf að þessari innheimtu.

Nú sýnist mér ég vera búinn að fara efnislega yfir álitið okkar. Að því sögðu vil ég þakka nefndarmönnum, bæði nefndarmönnum meiri hlutans og minni hlutans, fyrir gott samstarf í nefndinni, góðar samverustundir. Það sem ég hef farið hér yfir eru þau grundvallarsjónarmið sem við í minni hlutanum höfum sameinast um. Þau byggja á þeim gildum sem við aðhyllumst. Við ætlumst ekki til þess að áherslur okkar flokka ráði för í þessum fjárlögum, það eru aðrir flokkar sem stjórna landinu. En við biðlum til þingmanna allra flokka að sameinast um það augljósa réttlætismál að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum fylgi frítekjumarki hjá eldra fólki núna um áramótin. Það er það minnsta sem við getum gert.