152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu nefndarálits minni hlutans. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað úr efnahags- og viðskiptanefnd um að vinnan og samstarfið í nefndinni og umræðan þar hefur verið góð, þó svo að eðli máls samkvæmt séu skiptar skoðanir um ýmislegt. Það breytir því ekki að nefndarstarfið hefur verið gott. Hv. þingmaður bendir hér, undir liðnum önnur atriði í nefndaráliti sínu, á ýmislegt sem hann telur betur mega fara. Þá vil ég minna á að í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er frumvarp til starfskjaralaga og frumvarp til breytinga á lögum um gjaldþrotaskipti, þ.e. kennitöluflakk. Ég veit að það er ekki nákvæmlega það sem þingmaðurinn er að benda á hér en ég vil minna á að þessi mál eru hérna. En mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að mér fannst mega skilja það á ræðu hans: Vill hann hafa samræmt eða eins kerfi þegar kemur að elli- og örorkulífeyrisþegum? (Forseti hringir.) Ég vil ræða þetta mál nánar í seinna andsvari en byrja á þessu.