152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:21]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, mér finnst ekki sjálfsagt að kerfið utan um fólk með skerta starfsgetu og kerfið utan um eldra fólk séu endilega alveg eins. Það sem við höfum hins vegar lagt áherslu á í okkar nefndaráliti er að það fari ekki vel á því að meðhöndla lífeyristekjur, sem sagt frestaðar atvinnutekjur, og atvinnutekjur með jafn gríðarlega ólíkum hætti og er lagt upp með í fjárlagabandorminum. Auk þess sé það ákveðið réttlætismál að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum hækki nú loksins, en það hefur staðið í stað síðan 2009. Ég tel að það skjóti skökku við að frítekjumarkið hækki verulega hjá eldra fólki en standi áfram í stað hjá öryrkjum, sérstaklega þegar það liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um það hvernig ábatinn dreifist með þessari hækkun.