152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:24]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst athyglisvert að heyra hv. þingmann tala um breytingar sem voru gerðar 2016 og tala í raun svolítið eins og þær hafi verið gerðar af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Ég vissi ekki að samruninn milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins … (SÞÁ: Nei, nei. Breytingasöguna.) — Breytingasöguna, einmitt. En núna erum við að ræða aðgerðir þessarar ríkisstjórnar og það liggur alveg fyrir hver forgangsaðgerð hennar í almannatryggingum er, birtist í stjórnarsáttmála. Þetta er það eina handfasta í stjórnarsáttmálanum um það hvernig eigi að breyta almannatryggingakerfinu. Aðgerðin sem ráðist var í fyrir fólk sem ekki er með nein réttindi í lífeyrissjóðum er góðra gjalda verð. Það er mikilvæg aðgerð en breytir ekki því sem ég hef rætt um varðandi það óréttlæti sem felst í því að meðhöndla atvinnutekjur og frestaðar atvinnutekjur með svona ofboðslega ólíkum hætti. Sú forgangsröðun sem birtist í þessum fjárlagabandormi og í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er einfaldlega óréttlát að mínu viti, sérstaklega þar sem hún beinist að tekjuhæsta fólkinu og aðallega körlum frekar en konum.