152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:26]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu minni um tvö efnisatriði, annars vegar að hækka hlutfall bankaskattsins svokallaða aftur í það sem hann var fyrir tveimur árum og hins vegar að átakið Allir vinna verði framlengt út allt næsta ár.

Ég ætla, með leyfi forseta, að byrja á að mæla hér fyrir tillögu um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki sem felur í sér að bankaskattur verði aftur hækkaður í það sem hann var fyrir lækkun hans árið 2020.

Með þessari breytingu myndi bankaskatturinn hækka úr 0,145% í 0,376%, sem er það sem hann var fyrir breytinguna á síðasta ári. Mig langar að vekja athygli á hversu lágar prósentutölur um er að ræða. Við erum að tala um tölur sem ná ekki einu sinn hálfu prósenti. Bankaskatturinn er núna minna en 0,2% og mun ekki einu sinni ná 0,4%, nái þessi tillaga fram að ganga.

Getur sá sem mikið hefur í alvöru kvartað yfir skattahækkun sem nær ekki einu sinni hálfu prósenti? Það eru ýmis rök sem mæla með því að bankaskattur verði hækkaður aftur en fá sem mæla með því að þessi 61% lækkun fái að standa, og í raun ætti að hækka hann mun meira en hér er lagt til. Ein helstu rökin gegn hækkun bankaskatts eru að bankarnir muni velta þeim kostnaði út í samfélagið og yfir á neytendur í formi hærri vaxta. Þau rök eru lituð af meðvirkni og ótta og halda ekki vatni við nánari skoðun.

Í fyrsta lagi er það staðreynd að lækkun bankaskatts hefur ekki haft nein áhrif á vaxtalækkanir bankanna. Vaxtalækkunarferli þeirra hófst í maí 2019, löngu áður en bankaskatturinn var lækkaður. Það var vegna vaxtalækkana Seðlabankans og lífskjarasamninganna sem bankarnir hófu, treglega þó, að lækka vexti sína. Í því samhengi er rétt að nefna að þrátt fyrir lífskjarasamninga og vaxtalækkanir Seðlabankans, ásamt 61% lækkun bankaskatts, hafa vaxtalækkanir þeirra ekki verið í neinu samræmi eða hlutfalli við lækkun stýrivaxta Seðlabankans. Lækkun bankaskattsins hefur því ekki skilað neinu nema minni tekjum í ríkissjóð sem hefur orðið af um 6 milljörðum vegna þessarar lækkunar. Það hlýtur að muna um minna. Þrátt fyrir lægri bankaskatt hafa vextir á þeim tíma verið allt að 250% hærri en þeir hefðu átt að vera, hefðu þeir lækkað í réttu hlutfalli við stýrivexti Seðlabankans. Þessa lækkun eiga neytendur enn inni hjá bönkunum, sem er gott að hafa í huga í þeim vaxtahækkunargír sem þeir eru í um þessar mundir.

Í öðru lagi er það staðreynd að á undanförnu ári hafa bankarnir skilað methagnaði. Ekki methagnaði eftir mörg mögur ár. Nei, þvert á móti, eftir mörg feit og góð ár var methagnaður hjá þeim í miðjum alheimsfaraldri og alheimskreppu. Þeir eru því ekki á flæðiskeri staddir og ættu að geta lagt meira til samfélagsins en þeir gera án þess að muna mikið um það. Þessi hagnaður er heldur ekki til kominn vegna gríðarlegra klókinda bankamanna í fjármálum. Dæmin sem sanna að þeir séu vægast sagt mistækir eru nokkuð mörg, en þeir hafa hins vegar alveg einstakan aðgang að heimilum og fyrirtækjum landsins, ásamt því sem hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur bugtað sig og beygt fyrir þeim í fullkominni meðvirkni og eftirlitsstofnanir lítið haft sig í frammi. Það er kominn tími til að það breytist. Það er kominn tími til að við hér á Alþingi, sem höfum verið kjörin fyrir fólkið í landinu, til að gæta hagsmuna þess, förum að taka hagsmuni fólksins fram yfir hagsmuni bankanna.

Bankaskatturinn mun ekki hafa nein áhrif á hækkun eða lækkun vaxta. Bankarnir munu hækka vexti, alveg sama hvað, sjái þeir minnsta tilefni til þess. Ekki út af hærri bankaskatti, heldur einfaldlega af því að þeir vita að þeir komast upp með það og enginn hefur nokkurn tíma krafið þá um að sýna einhverja smávægilega samfélagslega ábyrgð. Hvernig væri að fara að gera það?

Ættum við ekki sem alþingismenn, svo ég tali nú ekki um ríkisstjórn Íslands, að gera kröfu til bankanna um að sýna samfélagslega ábyrgð á erfiðum tímum? Er ekki eitthvað að þegar ríkisstjórnin er svo meðvirk með bönkunum að hún lagar lög, eða bankaskatt í þessu tilfelli, að því hvernig bankarnir haga sér og koma fram, í stað þess að krefja þá um að bæta hátterni sitt? Er ábyrgðarleysi þeirra virkilega svo sjálfsagður hlutur að ríkið lagi sig að því í stað þess að krefja bankamenn um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki gagnvart fólkinu í landinu, frekar en að blóðmjólka það?

Skoðum nokkrar staðreyndir: Frá hruni hafa bankarnir hagnast um a.m.k. 960 milljarða. Sjálfsagt verður hagnaður þeirra kominn yfir 1.000 milljarða núna um áramótin eða snemma á næsta ári. Fyrir 900 milljarða hefði t.d. verið hægt að reisa 10–12 hátæknisjúkrahús. Frá því að bankarnir fengu nýjar kennitölur hefur hver einasti einstaklingur í 360.000 manna þjóðfélagi lagt 2,5 milljónir kr. í hagnað bankanna. Arion banki einn og sér greiddi hluthöfum sínum 88 milljarða í arð á þessu ári. Miðað við 360.000 Íslendinga eru það rúmlega 244.000 kr. á hvert einasta mannsbarn. Er virkilega hægt að halda því fram að þeir ráði ekki við bankaskatt upp á 0,376%?

Hver er samfélagsleg ábyrgð banka? Bankar eiga að sjálfsögðu að bera samfélagslega ábyrgð en þeir sýna það ekki á nokkurn hátt í verki og þeir komast bara upp með það átölulaust, því að enginn virðist þora að hrófla við þeim á nokkurn hátt. Heimilin í landinu borga nærri 37% af tekjum sínum í beina skatta og ofan á það bætast svo óbeinir skattar, t.d. í formi virðisaukaskatts, og þau geta ekki talið fram kostnað á móti til að lækka skattbyrði sína.

En fyrirtæki sem hagnast um tugmilljarða á tugmilljarða ofan á hverju einasta ári, og hafa greitt fjárfestum sínum tugi milljarða í arð bara á þessu ári, eiga ekki að þola að greiða skatt sem jafngildir innan við 17% af væntanlegum árshagnaði þeirra án þess að taka það út á viðskiptavinum sínum. Ég trúi því ekki að óreyndu að þingheimur falli fyrir slíku bulli.

Með réttu ætti bankaskatturinn að vera mun hærri en hér er mælt fyrir, því að þarna, nákvæmlega þarna, eru fyrirtæki sem eru aflögufær framar öðrum. Hagnaður þeirra er frá fólkinu í landinu og á að skila sér aftur til þess. Það er til marks um ótrúlega meðvirkni með bönkunum og fjármálakerfinu að við skulum virkilega þurfa að ræða hvort bankarnir eigi að borga bankaskatt upp á 0,145% eða 0,376% og að við felum okkur á bak við ótta við viðbrögð þeirra og hefndaraðgerðir, verði ekki verið farið að vilja þeirra í einu og öllu.

Við þurfum að stíga út úr meðvirkni okkar við bankana og Alþingi verður að hafa forgöngu um það. Að hækka bankaskattinn í það sem hann áður var væri gott fyrsta skref í þá átt. Fyrirtæki með tugmilljarða í hagnað á hverju ári eiga eins og aðrir, og í raun frekar en aðrir, að leggja sitt til samfélagsins. Svo er það eftirlitsstofnana að fylgjast með því að sá kostnaður verði ekki lagður á fyrirtækin eða heimilin í landinu, hvort sem er í formi vaxta eða annars kostnaðar. — Hættum þessari meðvirkni með fjármagnsöflunum.

Þá er það átakið Allir vinna. Átakið Allir vinna var ein af Covid-aðgerðum ríkisstjórnarinnar og var því ætlað að örva hagkerfið með því að hvetja til aukinna umsvifa. Í aðgerðinni felst 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts af þeirri starfsemi sem hún nær til. Úrræðið átti að gilda út árið 2021 en meiri hlutinn leggur nú til að það verði framlengt til loka ágúst á næsta ári hvað varðar íbúðarhúsnæði og til loka júní hvað varðar frístundahúsnæði og fleira, en falli niður strax um áramót vegna vinnu við bílaviðgerðir.

Aftur á móti legg ég til að úrræðið Allir vinna verði látið gilda út allt næsta ár fyrir alla þessa starfsemi, enda er ávinningur af því mikill. Þá er ávallt best að framlengja úrræði sem þessi að öllu leyti í stað þess að framlengja þau að hluta, enda flækir það framkvæmdina töluvert, sérstaklega þegar breytingar eiga sér stað á reglum um virðisaukaskattsskil á miðju ári. Átakið Allir vinna, sem stóð yfir á árunum 2009–2015, hafði jákvæð áhrif á skattaskil í greininni og þar með tekjur ríkissjóðs samkvæmt umsögn Samtaka iðnaðarins. Þegar það var fellt niður fór að bera á auknu skattundanskoti í byggingariðnaði. Um átakið segir í minnisblaði Samtaka iðnaðarins, með leyfi forseta:

„Átakið Allir vinna, sem stóð yfir á árunum 2009–2015, hafði þó jákvæð áhrif á skattaskil í greininni og þar með tekjur ríkissjóðs. Í þessu samhengi benti Skúli Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisskattstjóri, á að með því að gefa vinnuna ekki upp komi kaupandinn sér hjá því að greiða 40% af virðisaukaskattinum. Þá geti seljandi vinnunnar sloppið við að gefa söluna upp til tekjuskatts. Í 100% endurgreiðslu sé hins vegar enginn ávinningur fyrir kaupanda að gefa ekki upp virðisaukaskatt. Þetta leiðir til þess að tekjuskattsskil greinarinnar ættu að aukast þegar endurgreiðslan er 100%. Í ársbyrjun 2015 lækkaði endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna úr 100% niður í 60%, en þá hafði Allir vinna-átakið verið frá árinu 2009. Ári seinna, þ.e. 2016, fór að bera á auknu skattundanskoti í byggingariðnaði þar sem umsóknum um endurgreiðslu fækkaði um heil 60% á sama tíma og umsvif í byggingariðnaði jukust. Í umræðum um skattaeftirlit og skattrannsóknir sem fram fóru á Alþingi 1. febrúar 2016 tók Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra það fram að afleiðingar af niðurfellingu átaksins væru neikvæðar og virtust ekki hafa gefið góða raun. Gera má ráð fyrir sambærilegum áhrifum nú.“

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að átakið verið framlengt að hluta. Strax 1. janúar falli úr gildi undanþága vegna bílaviðgerða, bílaréttinga og bílamálana, en það verði framlengt að öðru leyti til 31. ágúst þegar endurgreiðslan fellur niður í 60% í lok árs.

Flokkur fólksins telur að átakið Allir vinna hafi skilað miklum árangri og að nú sé þörf á að nýta jákvæð áhrif þess til þess að vinna niður atvinnuleysi og draga úr skattasniðgöngu. Þá er ávallt best að framlengja úrræði sem þessi að öllu leyti í stað þess að framlengja þau að hluta. Og í morgun barst ákall til þingsins frá sveitarfélagi Skagafjarðar um að framlengja Allir vinna.

Það er ljóst að verðbólga mun verða töluverð á næsta ári og því munu margar fjölskyldur sjá sig tilneyddar að draga saman seglin og minnka útgjöld. Það er því verulega hætt við að þá muni ýmsar framkvæmdir, oft nauðsynlegar, sitja á hakanum. Það má því gera ráð fyrir samdrætti hjá iðnaðarmönnum sem sinna viðhaldi verði ekkert að gert. Endurgreiðsla virðisaukaskatts allt árið myndi virka hvetjandi á heimili sem annars myndu jafnvel halda að sér höndum, auk þess að hamla því að fólk freistist til að kaupa svarta vinnu til að spara sér útgjöld. Framlenging Allir vinna mun koma bæði iðnaðarmönnum og einstaklingum til góða á tímum sem fyrirsjáanlegt er að verði mörgum erfiðir. Það er því nauðsynlegt að tryggja að úrræðið fái að standa út árið á meðan við vöxum út úr kreppunni. Þannig munu allir vinna, eins og alltaf var lagt upp með.