152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:02]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Forseti. Við lestur frumvarpsins getur verið auðvelt að gleyma stóru myndinni þegar kafað er ofan í einstakar krónutölubreytingar, prósentur og vísitölur, umfjöllun um gistináttagjaldið, sóknargjöldin eða gjaldhlutfall af álagningarstofni. Það er hætta á því að við í þessum sal sjáum ekki skóginn fyrir trjánum þegar við kryfjum einstaka liði frumvarpsins, skiptumst á skoðunum um tilteknar breytingar eða samþykkjum eina prósentu fram yfir aðra. Í öllu talnaflóðinu sem flæðir um allar koppagrundir megum við ekki gleyma því sem þetta allt saman snýst um; fólk, venjulega Íslendinga sem þessar breytingar hafa bein áhrif á. Ákvarðanir sem við tökum hér á næstu dögum og samþykkjum fyrir áramót munu snerta almenning og veski fólks. Það er í okkar höndum að hafa áhrif á það sem annað fólk hefur á milli sinna handa. Okkur ber því skylda til að taka vinnu okkar við þetta frumvarp, rétt eins og önnur mál þar sem við vílum og dílum með afkomu fólks utan þessara veggja, af mikilli alvöru.

Umræðan um fjármögnun hins opinbera er þó meira en bara karp um krónur og aura. Við stöndum nefnilega líka frammi fyrir stórum siðferðislegum spurningum um í hvaða vasa skuli sækja þessar sömu krónur og aura. Telja þingmenn til að mynda réttlætanlegt að opinberar stofnanir þurfa að reiða sig á neyð fólks til að fjármagna sig? Viljum við að starfsemi stofnana standi og falli með því hversu mikið fé þeim tekst að sækja í vasa veiks fólks? Telja þingmenn það vera eðlilegt fyrirkomulag í opinberum rekstri?

Svarið virðist vera já, því að þetta er nákvæmlega það sem við erum að gera. Þingmenn hafa nefnilega búið svo um hnútana að æðsta menntastofnun Íslands, vagga þekkingar, vísinda og upplýstrar umræðu í íslensku samfélagi, getur ekki þrifist án þess að fjármagna sig með rekstri spilakassa. Í stað þess að fjármagna Háskóla Íslands með almennri skattheimtu þar sem byrðunum er deilt með eðlilegri hætti vilja stjórnvöld heldur leggja byrðarnar á þau sem síst standa undir henni, fólk með spilafíkn sem seint mun teljast breiðustu bökin í íslensku samfélagi.

Happdrættisfé sem spilakassar í eigu Happdrættis Háskóla Íslands skila er notað til að fjármagna byggingar, viðhald og tækjakaup háskólans. Þetta fé skiptir háskólann svo miklu máli að stjórnarformaður Happdrættis Háskóla Íslands telur að fjármögnunargrunnur skólans myndi einfaldlega hrynja ef hann hefði ekki spilakassana. En það gerir rekstur spilakassa samt ekki siðferðislega réttlætanlegan eins og almenningur er fullmeðvitaður um. Könnun Gallups, sem var gerð í maí 2020, sýnir að 86% íslensku þjóðarinnar vilja að spilakössum verði lokað til frambúðar. Háskóli Íslands er ekki að reka spilakassa í skjóli þjóðarsáttar heldur í skugga vanfjármögnunar. Þessu leyfa stjórnvöld að viðgangast þrátt fyrir að sama vísindasamfélag og nýtur góðs af þessu fyrirkomulagi viti mætavel hvaða afleiðingar spilafíkn hefur á þau sem setjast við spilakassann og aðstandendur þeirra. Viljinn til að bæta úr þessu er lítill sem enginn. Ég skil ekki hvernig það er siðferðislega réttlætanlegt að æðsta menntastofnun Íslands þurfi að reiða sig á fjármagn frá rekstri spilakassa en vandamálið liggur því miður hjá Alþingi. Kjarni málsins er einfaldlega sá að háskólinn þarf á fjármagni að halda og því er leitað í spilakassana. Ábyrgð okkar þingmanna er því mikil.

Hæstv. þáverandi menntamálaráðherra sagði, á fundi velferðarnefndar í mars síðastliðnum, að ráðuneyti sitt myndi ekki leggjast gegn því að fundnar yrðu aðrar leiðir til að fjármagna háskólann. Ég vil því hvetja þingheim til að gera einmitt það, leita annarra leiða. Það væri jafnvel hægt að endurvekja það að sóknargjöld fólks utan trúfélaga renni til háskólans eða bara að fjármagna háskólann almennilega í fjárlögum.

En eitt er víst: Þegar kemur að fjármögnun háskólans þurfum við að hugsa út fyrir spilakassann.