152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. 11. þm. Reykv. s. að það er trúfrelsi í landinu og hver sem er getur iðkað þá trú eða verið meðlimur í því trúfélagi sem honum sýnist. Og það er mikilvægt að svo sé. Það var þannig að kirkjan innheimti sín sóknargjöld sjálf. Síðan var tekið upp eitthvað sem heitir nefskattur og fest í lög. Sóknargjöld voru fest í lög 1987; fest var í lög að sóknargjöld væru hlutfall af tekjuskatti og innheimt svipað og gert er með útsvar og útsvari skilað til sveitarfélaga og þar með sóknargjöldum til trúfélaga. Ég ætla ekki að munnhöggvast við hv. þingmann um það hvaða starfsemi er veitt en ég ítreka að mér er það til efs að nokkur annar sé með jafn þéttriðið öryggisnet fyrir fólkið í landinu og þjóðkirkjan.

Svo vil ég líka fá að nefna að það er að sliga kirkjur landsins að halda við mannvirkjum, sem þeim sóknum ber að halda við. Ríkið hefur friðað gríðarlega margar kirkjur og því fylgir ákveðin ábyrgð. En síðustu ár hefur staðan verið þannig að það er varla hægt að mála eða halda hita á þessum húsum eða hreinlega að halda þeim við. Þau eru þó hluti af menningararfi okkar, alveg sama hvernig á það er litið.