152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:21]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Hér fyrr í morgun mælti hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson fyrir áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar og fór þar yfir allmörg atriði sem ég tel ástæðu til þess að ítreka örlítið í þessari stuttu ræðu. Það er freistandi að taka ákvarðanir um ívilnandi aðgerðir til handa borgurunum. Röksemdirnar eru yfirleitt góðar, málefnin iðulega góð og iðulega felast aðgerðirnar í einhvers konar stuðningi við þröngan hóp. Það gleymist þó oft, eðlilega, að það skortir á gagnsjónarmiðin eða málsvara gagnsjónarmiðanna í þeirri umræðu sem eru auðvitað sjónarmið hins almenna skattgreiðanda í þessu landi. Þess vegna er ástæða til þess að fara örlítið yfir tillögur minni hlutans í þessu ljósi og tala þar máli varfærni sem jafnan gleymist þegar ákvarðanir sem þessar eru teknar.

Ég ætla að tæpa á tveimur atriðum sem snúa að afkomubætandi aðgerðum sem lagðar eru til í þessu minnihlutaáliti og tveimur aðgerðum sem lagðar eru til til að bæta hag hópa sem standa höllum fæti. Þær tvær tillögur sem mig langar til að nefna eru annars vegar tillögur minni hlutans um að ljúka átakinu Allir vinna. Fram kom í vinnu nefndarinnar að mat fjármála- og efnahagsráðuneytis á þeirri aðgerð almennt séð væri að hún væri til stuðnings atvinnugrein sem ekki upplifði neinn verkefnaskort, hefði þvert á móti úr fleiri verkefnum að spila en hún réði fyllilega við, sem er auðvitað jákvætt og gott, en þar af leiðandi væri þessi aðgerð þensluhvetjandi. Hér er kannski dæmi um aðgerð sem auðvelt er að styðja og svolítið erfitt að vera á móti í ljósi þess að sá hópur sem nýtur góðs af henni er allt um kring, iðnaðarmenn og þeir sem kaupa þjónustu þeirra, en þeir sem verða fyrir neikvæðu áhrifunum, sem eru óljós og einhvern tímann í framtíðinni, eru þeir sem verða fyrir skakkaföllum vegna þenslu í íslensku samfélagi.

Ég nefndi það í ræðu um daginn að það er einn atvinnuvegur á Íslandi sem er í miklum uppgangi. Það er atvinnuvegurinn „annað“, og það er vel. Þessi atvinnuvegur er fjölbreyttur og ákaflega ákjósanlegur fyrir íslenskt efnahagslíf en á sér kannski ekki fyllilega nógu góða málsvara. Fáar atvinnugreinar aðrar, alla vega fáar atvinnugreinar í útflutningsgeiranum á Íslandi, eru hins vegar viðkvæmari fyrir óstjórn í efnahagsmálum og þenslu og einmitt þessi grein, annað. Ástæðan fyrir því að minni hlutinn lagði til að hætta þessu átaki,Allir vinna, er nákvæmlega sú að þar er ábatinn óviss en neikvæðu afleiðingarnar hugsanlega umtalsverðar. Þar er einfaldlega komin upp sú staða að við sem erum hér fulltrúar almennings þurfum að taka tillit til hagsmuna hinna mörgu umfram hagsmuni hinna fáu.

Hitt atriðið sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson gerði að umtalsefni þegar hann kynnti minnihlutaálitið voru tekjuöflunartillögur. Þar langar mig sérstaklega til að nefna veiðigjöld. Ekkert er um breytingar á þeim í þessum ágæta lagabálki sem hér liggur fyrir Alþingi en hefði að mínu viti átt að vera. Alþjóðlegar stofnanir hafa ítrekað bent á að álagning auðlindagjalda er ákjósanleg fjáröflunarleið fyrir þau ríki sem eru svo heppin að hafa aðgang að auðlindum. Ástæðan er sú að séu þau skynsamlega sett fram og hófleg þá hafa þau engin neikvæð áhrif á efnahagsstarfsemi eins og því sem næstum því öll önnur tekjuöflun ríkisins hefur. Raunar má segja að auðlindagjöldin séu þar með umhverfisgjöldunum í nokkrum sérflokki. Það er þess vegna miður að sjá að ekki séu gerðar neinar tillögur til úrbóta á því kerfi sem svo augljóslega er skringilegt.

Í þessu samhengi má nefna að Íslendingar eru ekki lengur í neinum sérflokki hvað varðar þessa gjaldtöku. Margar þjóðir í nágrenni við okkur hafa tekið hana upp, þar með talið bæði Grænlendingar og Færeyingar. Nærtækt er að nefna í þessu samhengi að við okkur blasir nú einhver besta loðnuvertíð sem höfum séð í alllangan tíma. Loðnustofninn er deilistofn sem við deilum m.a. með Grænlendingum, raunar er það svo að eigendur grænlensku fyrirtækjanna eiga margir hverjir íslenskar rætur þannig að segja má að þessir systurflotar séu að sækja í sömu auðlind og að einhverju leyti af sömu aðilum. Þó háttar svo furðulega til nú að ef grænlensk veiðigjöld væru notuð við að reikna út veiðigjald fyrir Ísland væri áætlaður ábati íslenska ríkisins af þeim veiðigjöldum 2 milljarðar kr., en ekki 0 kr.

Mig langar síðan að víkja aðeins að tveimur ráðstöfunartillögum sem eru í minnihlutaálitinu. Önnur er um jöfnun frítekjumarka milli atvinnutekna annars vegar og tekna úr lífeyrissjóðakerfinu hins vegar. Hið pólitíska ferli er viðkvæmast fyrir ákvarðanatöku þegar lítill hópur með þrönga hagsmuni sækir sína hagsmuni vegna þess að hagsmunir hinna mörgu eru svo veikir að þeir láta oft undir höfuð leggjast að gæta þeirra. En því miður virðist vera að sú jöfnunartillaga sem meiri hlutinn lagði fram sé þessu marki brennd. Hún nær til ákaflega þröngs hóps meðan ljóst er að hin mörgu þurfa að búa við óbreytt ástand og í mörgum tilfellum með mjög takmarkaðar tekjur.

Sama marki brennd er að einhverju leyti útfærslan á þróun viðmiða tekjuskattskerfisins. Tillaga minni hlutans er að þessi viðmið fylgi launaþróun því að launaþróun endurspegli til mikilla muna betur framleiðniþróun í samfélaginu heldur en tilviljanakennt valin 1% framleiðniaukning. Eins og hv. þm. Jóhann Páll vék að í sinni ræðu þá lýsir 1% framleiðniaukning nokkru metnaðarleysi íslenskra stjórnvalda fyrir hönd íslenska hagkerfisins en er líka fullkomlega óraunhæf þegar söguleg gögn eru skoðuð. Sérstaklega er þó ástæða til að styðja við málflutning hv. þm. Jóhann Páls hvað varðar launaþróun sem skynsamlegri mælikvarða. Laun ráðast jú á endanum af framboði og eftirspurn en líka gæðum vinnuafls. Á opnum samevrópskum vinnumarkaði ættu raunar gæðin að vera aðalatriði. Þannig ætti launaþróun að endurspegla nokkuð vel framleiðniþróun. Það verður að segjast eins og er að það vekur nokkra undrun að ekki hafi komið til tals að nota launaþróun frekar sem viðmið fyrir þróun tekjuskattskerfisins inn í framtíðina fremur en tilviljanakennda og fremur metnaðarlausa áætlun um 1% framleiðnivöxt.