152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:10]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er einhvern veginn allt á sömu bókina lært í fyrirætlunum þeirrar ágætu ríkisstjórnar sem nú situr við völd. Það er jafnvægisleysi, það er stöðnun, það er kyrrstaða í þessum bandormi eins og mörgu öðru. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í þessum bandormi er farið sérstaklega gegn tillögum og ábendingum starfsmanna fjármálaráðuneytisins varðandi átakið Allir vinna. Minni hlutinn stendur hér að tillögu um að framlengja það ekki. Hér er um að ræða útgjaldaauka fyrir ríkissjóð upp á 7,5 milljarða sem væri betur varið til annarra hluta. Það er verið að vara við vaxandi þenslu í samfélaginu. Á sama tíma kastar ríkisstjórnin olíu á þann eld.