152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:17]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að segja nokkur orð um hið nýja viðmið í þróun skattleysis- og þrepamarka. Hæstv. forsætisráðherra kom hér upp og talaði um þetta sem stórt skref í átt til jöfnuðar. Ég er sammála því að það að vilja taka á raunskattsskriði felur auðvitað í sér viðleitni til að auka jöfnuð en sú leið sem hér er farin hefur miklu frekar hagstjórnarlegu hlutverki að gegna. Ef markmiðið væri sérstaklega að auka jöfnuð væri auðvitað miðað við launavísitölu en ekki framleiðni. Við erum að tala um framleiðniaukningu ekki framleiðsluaukningu, höfum það í huga.

Svo er rætt hér um átakið Allir vinna. Fjármálaráðuneytið bendir á að ekki liggja fyrir neinar greiningar á því hverju það átak skilar varðandi það að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi og stuðla að betri skattskilum. (Forseti hringir.) Nú er liðið meira en ár síðan þetta átak hófst — hvernig stendur á því að engin slík greining hefur verið unnin sem væri þá hægt að byggja á þegar við ræðum þetta?