152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mig langar bara til að koma upp þar sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar talar um neyð kirkjunnar og neyð trúfélaga og benda á neyð þeirra hópa í samfélaginu sem eiga minnst. Þá er ég að tala um öryrkja og þá orðræðu sem er hér ítrekað þess efnis að við eigum að lyfta öryrkjum upp úr þeirri fátæktargildru sem skerðingar eru og veita þeim svigrúm til að feta sig áfram á vinnumarkaði. En svo neitum við að hækka frítekjumark þeirra til jafns við aðra hópa í samfélaginu, eins og eldri borgara. Þetta er öfugsnúið, þetta meikar engan sens, afsakið slettuna, forseti. Ég legg til að við samþykkjum að öryrkjar fái sama frítekjumark og geti haft sama sveigjanleika á vinnumarkaði og aðrir hópar í samfélaginu. Annars er ekkert að marka það sem við erum að segja hérna. Með því að vilja ekki hækka þetta erum við klárlega að segja að öryrkjar eigi ekki að geta fetað sig á vinnumarkaðinum. Hvað viljum við gera hérna?